Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stórtónleikar Guðjónsbarna
Þriðjudagur 19. febrúar 2008 kl. 09:40

Stórtónleikar Guðjónsbarna

Tónlistarfélag Reykjanesbæjar býður upp á frábæra tónleika með systkinum landsþekktum úr tónlistargeiranum sunnudaginn 24. febrúar næstkomandi. Tónleikarnir hefjast kl. 20 í Bíósal listasafns Reykjanesbæjar.

Systkinin Óskar, Ómar og Ingibjörgu Guðjónsbörn þarf vart að kynna en þau hafa svo sannarlega auðgað íslenskt tónlistarlíf undanfarin ár.

Ingibjörg hefur helgað sig klassísku tónlistarlífi  sl. 20 ár.  Hún hefur  sungið fjölda einsöngs- og kammertónleika, bæði hér á landi og erlendis, verið einsöngvari með kórum og sinfóníuhljómsveitum og sungið á íslensku óperusviði. Einnig starfar hún sem söngkennari og kórstjóri Kvennakórs Garðabæjar.

Bræðurnir Óskar saxófónleikari og Ómar gítarleikari hafa verið áberandi í jass- og dægurlagamenningu. Þeir stunduðu báðir nám við Tónlistarskóla FÍH  og hafa spilað með mörgum ólíkum hljómsveitum, bæði í jass- og dægurlagageiranum, auk þess að gefa út hljómplötur sem m.a. hafa fengið hin virtu íslensku tónlistarverðlaun. Í fjársjóði íslenskra sönglaga hafa þau systkin fundið sameiginlegan vettvang þar sem þau eru trú sínum leikmáta og úr verður heillandi hljóðheimur.  Samstarf þeirra systkina hófst formlega fyrir ári síðan með þrennum tónleikum á vegum FÍT. Í desember síðastliðinn sendu þau systkinin frá sér geisladiskinn Ó Ó Ingibjörg en með þeim systkinum spila á diskinum, Tómas R. Einarsson á kontrabassa og Matthías M.D. Hemstock á trommur bæði þekkt íslensk lög og frumsamin.

Sala aðgöngumiða fyrir tónleika fer fram í Listasafni Reykjanesbæjar í DUUS húsum á opnunartíma safnsins sem er alla daga kl. 13:00 -17:00, auk þess er hægt að hringja inn í síma 421 3796. Miðaverð er kr. 1500.- og fá félagsmenn 20% afslátt af aðgöngumiðum á alla tónleika félagsins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024