Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stórkostleg uppfærsla Leikfélags Keflavíkur
Sunnudagur 15. mars 2009 kl. 14:08

Stórkostleg uppfærsla Leikfélags Keflavíkur

Það er óhætt að segja að Leikfélagi Keflavíkur takist vel upp með uppfærslu sinni á hryllingssöngleiknum Hin illa dauðu, sem félagið frumsýndi í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ að kvöldi föstudagsins þrettánda. Verkið er þýtt og staðfært af félögum Leikfélags Keflavíkur og í leikstjórn Guðmundar Þorvaldssonar. Tónlistarstjórn er í höndum Júlíusar Guðmundssonar.

 
Blaðamaður verður að viðurkenna að hann hafði ekki hugmynd um hverju hann ætti von á. Verkið er byggt á Evil Dead eitt, tvö og þrjú, eitthvað sem þetta skrifar hefur aldrei séð. Þarf af leiðandi var engu að tapa, heldur allt að vinna við að fara á sýninguna.
 
Salurinn var þétt setinn á frumsýningu og hann sýndi góð viðbrögð við sýningunni sem öllum að óvörum var troðfull af góðum húmor í bland við blóðugar senur þar sem fólk er aflimað svo meistaralega vel „tæknibrellurnar ættu að fá Óskarsverðlaun“ eins og einn sýningargestur sagði í hléi.
 
Leikarahópurinn stendur sig allur með prýði og allir komast frá sýningunni með glæsibrag. Söngurinn er skýr og textarnir góðir. Tónlistin í sýningunni er góð og lýsingin flott. Ljósa„showið“ gerir mjög mikið fyrir uppfærsluna og áhrifin á áhorfendur. Þá var Suðurnesja-tengingin í húmornum að hitta í mark hjá áhorfendum. Það má því segja að þessi uppfærsla Leikfélags Keflavíkur á „Hin illa dauðu“ sé stórkostleg uppfærsla. Hef svo sem aldrei verið í stjörnugjöf en þetta verk kemst nálægt því að fá fullt hús stiga, ekki síst fyrir það hvað það kom skemmtilega á óvart og fagmannlega er að því staðið.
 
Hin illa dauðu eru alls ekki við hæfi barna, enda hryllingur í verkinu og blóðið sprautast allt að því á þá sem eiga sæti á fremsta bekk. Hryllingurinn er síðan „kolefnisjafnaður“ með hárbeittum húmor. Takk fyrir frábæra skemmtun!
 
Næsta sýning á Hin illa dauðu er í kvöld, sunundaginn 15. mars kl. 20. Sýnt er í Frumleikhúsinu Vesturbraut 17. Miðapantanir eru sí síma 421 2540.
 
Hilmar Bragi Bárðarson
fréttastjóri Víkurfrétta
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024