Stjörnudjass í Sandgerði
Jazzfjelag Suðurnesjabæjar stóð fyrir stórskemmtilegum djasstónleikum í Bókasafni Sandgerðis síðasta föstudagskvöld. Á tónleikunum frumflutti samnorræni djasskvartettinn Astra níu frumsamin lög.
Astra kvartettinn er skipaður þeim Sigurði Flosasyni (saxófón), Andrési Þór (gítar), Andreas Dreier (kontrabassa) og Anders Thoren (trommur). Nafn kvartettsins, Astra, hefur beina tilvísun í geiminn og voru öll lögin tengd við geiminn eða himinhvolfið á einhvern hátt. Tónleikarnir mörkuðu upphaf tónleikaraðar Astra og voru eingöngu frumsamin lög þeirra Andrésar Þórs og Sigurðar Flosasonar á dagskrá. Það má segja að tónleikarnir hafi verið nokkurskonar generalprufa því þetta var í fyrsta sinn sem lögin voru leikin opinberlega og ætlaði kvartettinn að mæta í hljóðver morguninn eftir til að hefja upptökur á nýrri plötu.
Ágætlega var mætt á tónleikana og kunnu gestir augljóslega vel að meta það sem boðið var upp á. Bókasafnið hentar ágætlega fyrir uppákomur af þessu tagi og myndaðist afar þægileg stemmning þegar ljúfir djasstónarnir liðu um salinn.
Jazzfjelag Suðurnesjabæjar
Jazzfjelag Suðurnesjabæjar var stofnað í maí á síðasta ári og er tilgangur þess að efla menningu í Suðurnesjabæ og á Suðurnesjum öllum. Ljóst er að félagið er að gera góða hluti og þessu framtaki er vel tekið, framundan eru tvennir djasstónleikar í febrúar á vegum félagsins og ætlar sá sem þetta skrifar ekki að missa af þeim. Þess má geta að það er stefna Jazzfjelagsins er að ávallt sé frítt inn á tónleika á þess vegum.