Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stemmningin stundum eins og að taka lagið við eldhúsborðið
Föstudagur 9. nóvember 2018 kl. 06:00

Stemmningin stundum eins og að taka lagið við eldhúsborðið

„Opið svið“ haldið í fertugasta skipti í Grindavík. Óþekktir söngvarar taka lagið með hljómsveit á veitingastaðnum Fish House

„Stundum kemur upp fólk sem hefur dreymt um að standa á sviði og syngja með hljómsveit en aldrei á ævinni gert og þá gerum við allt til að láta viðkomandi hljóma eins vel og við getum og erum söngvaranum til halds og trausts. Stundum detta inn stórsöngvarar, þekktir sem óþekktir, innlendir sem og erlendir en oft hafa ferðamenn rekið upp stór augu og tekið þátt. Aðalmálið er að hafa gaman af þessu og það má segja að stemmningin sé stundum eins og að taka lagið við eldhúsborðið heima,“ segir Halldór Lárusson trommari í hljómsveitinni 3/4 og skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis en hljómsveitin verður með „Opið svið“ í fertugasta skipti föstudagskvöldið 9. nóvember á veitingastaðnum Fish House í Grindavík.

„Opið svið“ varð til árið 2013 þegar Halldór kom að máli við þá Bryggjubræður í Grindavík, þá Aðalgeir og Kristin Jóhannssynir um að halda „Opið svið“ á Bryggjunni eitt sumarkvöld þar sem fólki gæfist kostur á að syngja eða leika með nokkrum þaulvönum tónlistarmönnum. Það varð úr og vakti viðburðurinn svo mikla lukku að hann var endurtekinn nokkru síðar. Ekki leið á löngu áður en fólk fór að óska eftir að viðburðurinn yrði haldinn oftar enda var heimilislega og afslappaða stemningin farin að spyrjast út, ávallt húsfyllir og gestir farnir að koma frá öllum Suðurnesjum og Reykjavík. „Núna fimm árum síðar eru skiptin orðin 40 en „Opna sviðið“ hefur nú flutt sig um set og er nú haldið á Fish House í Grindavík eftir að Aðalgeir og Kristinn seldu Bryggjuna. Fertugasta skiptið verður nú á föstudaginn og verður öllu tjaldað til og fólki boðið til afmælisveislu: Fjörutíu skipti í fimm ár.“  Undanfarin misseri hefur hljómsveitin verið skipuð upphafsmanninum Halldóri Lárussyni á trommur, Ólafi Þór Ólafssyni á gítar og söng og Þorgils Björgvinssyni á bassa og söng. Ávallt er frítt inn og fólki boðið að taka lagið, segja sögur, nú eða spjalla og leysa lífsins vanda.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En hvernig eru söngvararnir?

„Þeir eru af öllum gæðastöðlum, aldri, kynjum, stærðum og þyngd,“ segir trommarinn og tónlistarkennarinn og svarar spurningu um hvað sé vinsælasta lagið sem þeir eru beðnir um að spila: „Vinsælasta lagið er trúlega „Að ferðalokum“ en það hefur komið fyrir að það lag hafi verið leikið margsinnis með ólíkum söngvurum sama kvöldið.“

Þremenningarnir í hljómsveitinni.