Steggur í röngum litum
Einar Hannes Harðarson er einn sá allra harðasti stuðningsmaður Grindvíkinga sem fyrirfinnst. Hann varð fyrir því óláni á dögunum að gifta sig. Það er kannski ekki svo slæmt en honum ljáðist að segja vinum sínum frá því í tæka tíð og því slapp hann við svokallaða steggjun. Vinir hans dóu þó ekki ráðalausir.
Í dag var Einar, sem er sjómaður, ræstur úr koju og skellt í yfirhalningu. Hann fékk m.a. þennan líka fína hárlit og var klæddur upp í körfuboltabúning Keflvíkinga. Nánar til tekið var hann látinn í búning númer 4 en einn af eftirlætis leikmönnum hans, Gunnar Einarsson klæddist iðulega þeim búning.
Steggurinn leit við í myndatöku hjá ljósmyndara Víkurfrétta og það var ekki annað að sjá en honum líkaði vel við búninginn og K-merkið.
Einari þykir greinilega vænt um Keflvíkinga og hér sést hann faðma eina af dætrum Keflavíkur.
Hann var þó tregur til að kyssa K-merkið.