Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Stefnt að uppbyggingu Garðskagans sem ferðamannastaðar
Sunnudagur 12. júlí 2015 kl. 09:00

Stefnt að uppbyggingu Garðskagans sem ferðamannastaðar

Sífelld fjölgun á ferðamönnum í Garðinum.

„Garðskaginn er alltaf að verða vinsælli og vinsælli ferðamannastaður og þar hefur þó nokkur uppbygging átt sér stað varðandi hinn sístækkandi ferðamannaiðnað. Garðskagavitinn hefur alltaf sitt aðdráttarafl sem og fjaran þar í kring. Þá hefur verið byggð upp glæsileg veitingaaðstaða á svæðinu. Garðurinn hefur einnig skapað sér ákveðna sérstöðu með því að rukka ekki fyrir aðgang að tjaldsvæði bæjarins á Garðskaganum,“ sagði Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar Garðs í viðtali við Víkurfréttir að lokinni vel heppnaðri Sólseturshátíð um næst síðustu helgi.

„Það hefur ekki verið stefnan hingað til að rukka fólk fyrir aðgang að tjaldsvæðinu á Garðskaganum en við höfum verið í vinnu núna í vetur við stefnumótum og munum kynna hana svona í lok sumars varðandi stefnumótum fyrir Garðskagann. Þar munum við kynna hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðin hér varðandi ferðamannaiðnaðinn. Stefnan er að halda áfram að byggja upp og gera enn betur fyrir ferðamanninn. Við viljum auðvitað ekki bara fá ferðamanninn hingað til að njóta náttúrunnar, við viljum líka byggja upp atvinnu í kringum hann, taka á móti ferðamanninum og hafa af honum aur, þetta byggist á því og skapa þannig störf í tengslum við þennan iðnað.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heppin með veður

„Sólseturshátíðin fór bara mjög vel fram eins og venjulega hjá okkur. Veðrið hefur leikið við okkur þessa vikuna eins og svo oft áður, við höfum oftast verið mjög heppnir með veður á hátíðinni á þessum árstíma. Þannig að hér eru bara allir mjög sáttir, þetta var vel heppnuð hátíð í alla staði og tókst mjög vel á allan hátt,“ segir Einar Jón. Glæsileg dagskrá var alla hátíðardagana og ljóst að mikið starf er unnið af mjög mörgum til að svona hátíð takist vel. Af mörgu þarf að hyggja og menn og konur þurfa að vinna sem ein heild til að allt gangi vel fyrir sig. Einar segir að hátíðin í ár hafi verið byggð upp á sama hátt og undanfarin ár. „Það er knattspyrnufélagið Viðir sem ber hitann og þungan af undirbúningi hátíðarinnar og fær greitt fyrir það af bænum. Það fólk sem er þar í forsvari á mestan og stærstan heiðurinn af þeirri dagskrá sem hér hefur verið. Það er búin að vera fjölbreytt dagskrá alla vikuna fyrir alla aldurshópa. Dagskráin hjá okkur byrjaði á mánudaginn og endaði í dag, sunnudag. Þetta er bara glæsilega að verki staðið hjá þeim einstaklingum sem stóðu að þessu og öllum þeim sem komu að þessu.“

Samvinna skiptir öllu máli

Hvað finnst þér hafa borið hæst á hátíðinni? 

„Það er voðalega erfitt að segja hvað bar hæst. Það er best að gera ekki upp á milli dagskrárliða. Mér fannst bara einkar góð dagskrá á allri hátíðinni. Ef maður á kannski að vera svolítið eigingjarn þá var blakmótið á föstudagskvöldið bara mjög skemmtilegt. Við unnum, mitt lið, erum taplausir ennþá,“ sagði Einar hlæjandi, greinilega mjög sáttur við sína menn. 

Skiptir ekki miklu máli að fá sem flesta til að vinna saman sem ein heild þegar kemur að svona hátíðarhöldum? 

„Jú alveg hiklaust. Þetta byggist á samvinnu. Samvinna er það sem skiptir öllu máli. Þeir sem eru í forsvari fyrir knattspyrnufélagið Víðir hafa tekið þetta að sér og samstarf þeirra við aðra íbúa í bænum hefur gengið mjög vel. Svo er auðvitað gaman að sjá hvað einstaklingar í bænum eru tilbúnir til að taka þátt, skreyta hús sín og slíkt. Við höfum viljað kalla þetta hátíð fyrir íbúa á svæðinu. Við erum ekki endilega að hugsa um að fá sem flesta hingað heldur að gera vel fyrir þá sem eru á svæðinu, íbúa Suðurnesja og aðra þá sem vilja koma og taka þátt í þessu og eiga góða stund með okkur hér í Garðinum.“

Sjávarútvegur og náungakærleikur

Hvernig er hægt að lýsa samfélaginu í Garðinum? 

„Samfélagið í Garðinum er svona týpískt lítið samfélag þar sem flestir þekkja alla, ekki kannski endilega eins og hér áður fyrr þegar maður sjálfur var yngri, þar sem allir þekktu alla. Við reynum samt og viljum vera lítið samfélag þar sem náunginn er tilbúinn að hjálpa hvor öðrum. Það hefur okkur tekist mjög vel á þessari Sólseturshátíð þar sem fólk kemur saman og hjálpast að. Þetta byggist mikið upp á félagasamtökum innan Garðsins á þann hátt að fólk kemur saman innan þessara félagasamtaka og vinnur saman, fyrir hvort annað hérna í Garðinum.“ Hvernig stendur atvinnulífið í Garðinum? „Það byggist upp á fisk og fiskvinnslu eins og verið hefur í gegnum tíðina, kannski ekki eins mikið og verið hefur en hérna eru öflug fyrirtæki sem stunda sjávarútveginn og það er óhætt að segja að Garðurinn sé öflugt sjávarpláss.“

Garðurinn hefur löngum haft orð á sér fyrir að vera nokkuð blátt samfélag varðandi pólitík og Sjálfstæðismenn hafa löngum haldið þar um stjórnartaumana. Þeir misstu þó völdin um hríð en eru nú með hreinan meirihluta með D-lista og óháðra. 

Hvíldarár er varðar fjárfestingar

Hvernig gengur hið pólitíska samstarf í Garðinum? 

„Já já það er alveg rétt, þetta hefur oft verið talið nokkuð blátt sveitarfélag og það er það vissulega og þó að það hafi komi smá rispa í það þá jafnar það sig eins og svo margt annað. En pólitíkin í Garðinum er þannig að hér starfa allir saman og það hefur gengið mjög vel. Við viljum að sem flestir komi að og starfi saman, þannig hefur okkur gengið best.“ 

Hvaða verkefni eru stærst hjá sveitarfélaginu um þessar mundir? 

„Það má segja að við höfum ákveðið að þetta ár núna í ár verði hálfgert hvíldarár hvað varðar stór verkefni og fjárfestingar. Við höfum verið að fjárfesta mikið undanfarið, nýbygging á íþróttahúsinu sem við tókum í notkun á síðasta ári var okkar stærsta verkefni. Þannig að við ákváðum að fara ekki út í neinar miklar fjárfestingar á þessu ári því að við þurfum náttúrulega að standast allar viðmiðunarreglur sveitarfélaga um fjárhaginn. Þannig að við ákváðum því að vera mjög róleg varðandi stór verkefni í ár og erum bara svona að fegra bæinn okkar smám saman.“

Áhugi fyrir því að flytjast í Garðinn

Hvernig er fjárhagsleg staða sveitarfélagsins Garðs? 

„Staða sveitarfélagsins er góð, við skuldum mjög lítið og það er það sem hjálpar sveitarfélaginu. Þegar við seldum hlut okkur í Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma, notuðum við hluta þeirra peninga til að greiða niður skuldir sveitarfélagsins. Það, að greiða niður skuldir sveitarfélagsins, hafði stór áhrif. Við höfum fjárfest fyrir þá peninga, bæði með því að greiða niður skuldir og með því að byggja upp. Allar undirstöður samfélagsins eru til staðar hér í Garðinum, góður skóli, gott íþróttahús, þannig að hér er öll aðstaða til staðar fyrir fólk til að koma og lifa í góðu sjávarplássi.

Er auðvelt fyrir utanbæjarfólk að setjast að í Garðinum í dag? 

„Ég mundi segja að það væri auðvelt já. Það hefur verið mikið af tómum íbúðum en það er svona að fyllast í þær núna. Það er eins og það sé áhugi fyrir því að flytjast á svæðið sem er jákvætt. Þær íbúðir sem hafa verið tómar eru smám saman að fyllast. Það hefur verið auðvelt að fá vinnu, bæði hér, í nágrannasveitarfélögunum og eins upp á flugvelli, þannig að það er stutt að sækja vinnu. Alþjóðaflugvöllurinn er hérna bara í túnjaðrinum svo að segja við hliðina á okkur í Garðinum. Við megum ekki gleyma því að hringtorgið við flugstöðina er í Garði þannig að það er stutt að fara í vinnu og í flugstöðinni er mikil uppbygging í gangi og virðist vera mikil vinna framundan þar.“

Hvað er framundan hjá bæjaryfirvöldum í Garði? 

„Við stefnum að því að halda bara áfram á sömu braut. Við viljum vera sveitarfélag sem vandar sig við það sem við erum að gera, sveitarfélag þar sem fólk getur notið náttúrunnar og haft það náðugt í rólegu og góðu umhverfi. Sólseturshátíðin er búin að vera alveg frábær og fullt af fólki sem naut þessarar yndislegu hátíðar með okkur. Svona er þetta ekki bara á Sólseturshátíðinni, svona er þetta meira og minna alltaf hérna í Garðinum,“ sagði Einar Jón að lokum.