Stefnir á nám erlendis - Bragi bassi með tónleika
Bragi Jónsson, bassasöngvari frá Sandgerði, mun halda burtfararprófstónleika á morgun, 25. mars kl. 20:00 í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Bragi er að ljúka burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík en hann hefur lært þar söng í rúm 5 ár og á þeim tíma hefur Bergþór Pálsson leiðbeint honum í fjóra vetur. Allir eru velkomnir á tónleikana og er aðgangur ókeypis.
„Nú er stefnan sett á frekara nám erlendis en það er ekki alveg ákveðið hvert. Ég er búinn að fá inngöngu í söngskóla í London en fer í lok maí í inntökupróf í Tónlistarháskólann í Vínarborg,“ sagði Bragi. „Vínarborg heillar mikið, mikil saga þar og mikil menning. Óperuhús og tónleikasalir eru þar á hverju strái en tíminn mun svo bara leiða í ljós hvert framhaldið verður.“
Í vetur hefur Bragi sungið reglulega á hádegistónleikum ungra einsöngvara sem hefur verið á vegum Íslensku Óperunnar í hverjum mánuði. Einnig kom hann fram á tónleikum með Óp-hópnum í Salnum í febrúar þar sem hinar ýmsu óperusenur voru fluttar. Þá kom hann fram á hátíðartónleikum Ljósanætur í september og söng þar meðal annars hlutverk Figaró í atriði úr Brúðkaupi Fígarós.
Bragi Jónsson hóf tónlistarnám sitt sex ára í Tónlistarskóla Öxarfjarðarhéraðs, fyrst á trompet og síðan á píanó til fimmtán ára aldurs. Árið 2006 hóf hann nám við Söngskólann í Reykjavík þar sem hann hefur notið leiðsagnar hjá Má Magnússyni, Alex Ashworth og undanfarin fjögur ár hjá Bergþóri Pálssyni. Hann hefur jafnframt notið leiðsagnar píanóleikaranna Ólafs Vignis Albertssonar, Kristins Arnar Kristinssonar, Iwonu Aspar Jagla og nú Krystynu Cortes og mun hann ljúka burtfararprófi á komandi vori.
Bragi hefur tekið þátt í uppfærslum nemendaóperu Söngskólans á Brúðkaupi Fígarós, The show must go on, Don Djammstaff, Tondeyleyó og nú síðast í Óperustund í Snorrabúð. Hann byrjaði 11 ára í kirkjukór í Kelduhverfi og hefur sungið með hinum ýmsu kórum síðan. Hann hefur verið meðlimur í Óperukórnum í Reykjavík undir stjórn Garðars Cortes síðan vorið 2006 og komið fram sem einsöngvari með kórnum við ýmiss tilefni.
Bragi er einnig félagi í karlakórnum Voces Masculorum sem er eingöngu skipaður tónlistarmenntuðum söngvurum. Kórinn syngur aðallega við jarðarfarir en einnig af og til við önnur tilefni. Þá er hann í Kór Íslensku Óperunnar þar sem hann hefur tekið þátt í nokkrum uppfærslum og má þar nefna Cavalleria rusticana og I pagliacci (2008), Ástardrykkurinn (2009), Draugagangur í Óperunni (2009), Hel (2009), og Rigoletto (2010) þar sem hann fór með hlutverk Ceprano greifa.
[email protected]
Bragi syngur á móti Jóhanni Friðgeiri Valdimarssyni í Rigoletto í Íslensku Óperunni.
Bragi við söng á Ljósanótt árið 2009.