Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stefnan sett á heimsmeistaratitil
Laugardagur 4. ágúst 2012 kl. 10:23

Stefnan sett á heimsmeistaratitil



Systkinin Aníta Lóa og Kristófer Haukur Hauksbörn eru að gera það gott í dansheiminum en þau eru meðal efnilegustu dansara þjóðarinnar. Aníta var nýverið valin ásamt dansfélaga sínum Andra Fannari Péturssyni í A-landslið Íslands og einnig vann hún sér rétt til að keppa á heimsmeistaramóti ungmenna í Austurríki og á heimsmeistaramóti ungmenna í Kína í haust en aðeins tvö pör á Íslandi unnu sér inn rétt til þess að taka þátt á mótunum. Hún dansar við eldri strák og keppir því upp fyrir sig í aldri. „Ég fann engan nógu góðan herra á mínum aldri og við Andri náðum líka svo vel saman,“ sagði Aníta sem er aðeins 14 ára gömul.


Kristófer bróðir hennar, sem er 16 ára er einnig að gera góða hluti í dansinum og var nýverið valinn í afreksmannahóp Íslands ásamt dansfélaga sínum Herborgu Lúðvíksdóttur en þau hafa verið dansfélagar í rúm fjögur ár. Á síðasta ári keppti hann á heimsmeistaramóti unglinga í Moldavíu með góðum árangri. Kristófer Haukur er kominn með nýja dansdömu og hefur hann verið mjög duglegur í sumar að vinna við að koma sér af stað með henni og gengur alveg afbragðsvel. Víkurfréttir tóku hús á þessum efnilegu systkinum á heimili þeirra í Innri-Njarðvík.


Aníta Lóa og Andri Fannar hafa æft stíft í sumar enda líður að þeim tíma sem þau fara á heimsmeistaramótin og mikilvægt að vera vel undirbúinn. Þau fara til Austurríkis fyrst og þaðan beint til Kína. Ásamt því að vera að vinna í dansinum sínum er annar undirbúningur á fullu eins og það að gera keppnisföt tilbúin og að fjármagna ferðina með alls kyns fjáröflunum.


Þau Kristófer og Aníta hafa verið í kringum dans allt frá blautu barnsbeini enda eru foreldrar þeirra kunnir dansarar. Þau hafa því umgengist marga af færustu dönsurum í heiminum en foreldrar þeirra hafa keppt víða um heiminn. Aníta segist hafa verið um tveggja ára þegar hún fór fyrst að dansa, eða bara stuttu eftir að hún fór að ganga.

Dansinn er kannski ekki vinsælasta íþróttin á Suðurnesjum en hér um slóðir eru flestir krakkar í körfubolta og fótbolta. Systkinin segjast aldrei hafa efast um hvort velja ætti dansinn og metnaðurinn alltaf verið mikill hjá þeim. Kristófer hefur stundað golf og körfubolta en þær íþróttir þurftu að mestu að víkja fyrir dansinum enda er dans tímafrek íþrótt. Aníta hefur lagt stund á fimleika og um tíma æfði hún ballet líka.



„Við æfum mikið tæknileg atriði en við þurfum að vera í góðu líkamlegu formi og gerum því mikið af styrktaræfingum,“ segir Kristófer. Þau þurfa að fylgja stífu prógrammi í líkamsræktinni og einnig þarf að huga vel að mataræðinu. Í dansi snýst mikið um framkomu og hvernig keppendur bera sig. Það þarf að æfa eins og hvað annað. Ávallt þarf að passa líkamsstöðuna og eru keppendur dæmdir eftir því hvernig þeir bera sig.

Oft er farið erlendis að keppa en systkinin fara að jafnaði tvisvar til þrisvar erlendis á ári til þess að keppa. Bæði eru þau sammála um að dans sé sífellt vaxandi og alltaf séu fleiri iðkendur að leggja stund á íþróttina hérlendis.

Samband para verður oft náið og sérstakt enda þurfa dansfélagar að verja miklum tíma saman og nándin er mikil. Kristófer segir að mikil vinátta myndist og sambandið sé óneitanlega sérstakt hjá dansfélögum.

Heimsækja áhugaverða staði víða um heim

Aníta er á leið til Peking í Kína nú í haust eins og áður sagði og er hún full eftirvæntingar. „Ég hlakka rosalega mikið til og er á fullu þessa dagana að safna fyrir ferðinni,“ en Aníta mun dvelja í viku í Kína á heimsmeistaramóti ungmenna í latín-dönsum en þaðan fer hún beint frá Salzburg í Austurríki þar sem hún keppir á heimsmeistaramótinu í standard-dönsum.

Standard-dansar eru t.d. waltz, tangó og foxtrot og þá eru pörin í kjólfötum og síðum kjólum. Þar eru pörin í dansstöðu allan tímann og hreyfast mun meira um gólfið en í öðrum dönsum. Suður-amerískir (latin) dansar sem eru t.d. jive, cha-cha, samba og fleira. Vínarvals er í sérstöku uppáhaldi hjá Kristófer en það þarf mikið þol og styrk til þess að dansa þann dans vel. Aníta segir foxtrot vera í sérstöku uppáhaldi af standard-dönsum en svo er það rúmba sem heilli hana mest í Suður-amerískum dönsum en það er rómantískur og fallegur dans þar sem þarf að hafa fulla stjórn á hverjum einasta vöðva líkamans.

Markmið þessara ungu dansara eru háleit og ætlar Aníta sér ekkert annað en sigur á heimsmeistaramóti í framtíðinni og stefnir að því að verða topp dansari eins og hún orðar það. Bæði ætla þau sér að verða atvinnudansarar en báðir foreldrar þeirra eru atvinnudansarar eins og áður sagði og því verður það að teljast ansi raunhæft.

Hvernig er það, finnst vinum ykkar eitthvað skrýtið að þið séuð að æfa dans?
„Þeim fannst það fyrst skrýtið en það vandist fljótt,“ segja þau bæði í kór. Þau segja þetta líka stundum erfitt vegna þess hve mikill tími fer í æfingar. Þau æfa á hverjum degi í a.m.k. tvo klukkutíma og svo eru það allar aukaæfingarnar. „Við vorum að reikna þetta um daginn og þetta eru um 20 tímar sem ég æfi á viku,“ segir Aníta og segir það vera lítið mál.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024