Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 19. febrúar 1999 kl. 19:33

STEFÁN BJARNASON MEISTARI Í HÚSGAGNASMÍÐI SMÍÐAR LÍKKISTUR SUÐURNESJAMANNA

ENDA Í EIGIN FRAMLEIÐSLU „Getur verið kaldranalegt að útbúa gistinguna fyrir þá sem ungir eru og alls ekki komnir á tíma að manni finnst“ segir Stefán m.a. í viðtali við Jóhannes A. Kristbjörnsson blaðamann VF Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson Smíðastofa Stefáns að Iðavöllum 5 í Reykjanesbæ er eitt fjölmargra verkstæða hér í bæ. Sérstaða verkstæðisins er þó mikil því þar eru smíðaðar líkkistur okkar Suðurnesjamanna. Stefán Bjarnason varð meistari í húsgagnasmíð 1980 en Smíðastofuna opnaði hann 1. janúar 1994 og hóf að smíða líkkistur. Hvers vegna íikkistur? „Ég hafði verið með verkstæði áður en ég varð bæjarverkstjóri og þá að mestu sinnt viðhaldsverkum, innan- sem utandyra. Mig langaði og gera eitthvað annað að þessu sinni. og einokun í líkkistusmíð hafði verið afnumin svo ég ákvað að láta reyna á hvernig þetta gengi. Þá hafði enginn ér Suðurnesjum sinnt þessu síðan Skúli H. heitinn. Ég hugðist vera einn en þurfti fljótlega að breyta áherslum og ráða inn aðstoðarmann. Í dag sinni ég almennri trésmíði með líkkistusmíðinni“. Fyrsta kistan, var það erfið smíð? ,,Fyrstu kistuna smíðuðum við Bói (Sigurbjörn Sigurðsson) fyrir tengdaföður minn. Hann hafði verið veikur lengi og þegar hann fór þá stóðum við allt í einu í þeim sporum að þurfa að standa við gefið loforð. Sú kista var tilfinningasmíð frá A til Ö. Ef til vill var það kveikjan að því sem síðar kom.” Er þetta ekki andlega erfitt, að vinna við eitthvað sem tengjist endalokum hvers manns? „Mér finnst ekkert mál að smíða kisturnar. Fyrst kom yfir mann skrýtin tilfinning þegar þær eru fullklæddar að innan, orðnar nokkurs konar rúm. Einnig getur verið kaldranalegt að útbúa gistinguna fyrir þá sem ungir eru og alls ekki komnir á tíma að manni finnst. Sjónarhorn hvers og eins breytist með aldrinum, gagnvart lífinu sem dauðanum, og ég einbeiti mér að því að vanda til hvers verks. Að lokum enda ég í eigin framleiðslu, það veit ég vel“. Talandi um gistinguna, í hverju eru Suðurnesjamenn grafnir? „Ég tel mig vera að selja mjög vandaða vöru en ég kaupi allt efni frá Svíþjóð. Þegar ég fór þangað fyrst óskaði ég eftir því að kisturnar yrðu ekki kassalaga og nefndi að ég vildi hafa þær lifandi með bogadregnum línum og urðu þeir alveg kjaftstopp. Þá vildu þeir selja mér efni í spónakistur en það féll ekki heldur að mínum óskum. Af þessum orsökum hefur vara mín sérstöðu, kisturnar eru allar úr gegnheilum við, lokið er hengslað við kistuna ólíkt því sem tíðkast annars staðar og klætt að auki“. Nú hlýtur markaðssetningin að vera erfið, ekki heimsækir þú, svartklæddur með pípuhatt, sjúkrastofnanir og dvalarheimili aldraðra og útbýtir nafnspjöldum og tekur mál af hverjum þeim sem hóstar eins og tíðkast í skopmyndasögunum? „Nei, ekkert slíkt. Ég hef t.d. átt gott samstarf við útfararþjónustu Lionsklúbbsins Garður og höfum við gefið út litla litprentaða upplýsingabæklinga sem liggja frammi á sjúkrastofnunum. Oftast eru það starfsmenn sjúkra- og hjúkrunarstofnana eða aðilar úr kirkjustarfinu sem hafa samband f.h. ættingja og gengið er frá þessum málum símleiðis en stundum vilja ættingjar koma, skoða aðstæður og sjá kisturnar sem er sjálfsagt mál“. Samkeppnin, er hún mikil og hörð? „Ég er eini aðilinn á Suðurnesjum. Á höfuðborgarsvæðinu eru 3 afar sterkir aðilar og svo einhverjir smáir annars staðar á landinu. Ég hef orðið var við aukinn áhuga af höfuðborgarsvæðinu, vegna vandaðrar vöru, og vona að framhald verði á. Það er erfitt að ná fótfestu á markaðnum í Reykjavík vegna aðstöðumunar því þegar einokunin var afnumin á sínum tíma þá breyttist ekkert nema að ársreikningarnir urðu tveir.” Nú búa flestar þjónustugreinar landsins við annatíð og gúrkutíð., er um slíkt að ræða í líkkistusmíðinni? ,,Þetta er nokkuð sem erfitt er að tala um en vissulega hefur maður veitt ákveðnum hlutum eftirtekt. Köldustu og dimmustu mánuðirnir, í kringum jólin og áramótin, virðast reynast mörgum erfiðir en minnst er að gera á sumrin.” Hve margar kistur hefur þú smíðað og selt síðan 1. janúar 1994? „Allt í allt eru þetta 300 kistur (1994-1998) en þar af eru 26 stk. sem fóru til Reykjavíkur 1998“. Hvað finnst fjölskyldunni um atvinnu heimilisföðursins? Finnst börnunum erfitt að segja ,,Pabbi smíðar líkkistur”? „Nei, nei, fjölskyldunni finnst þetta ekkert mál. Eiginkonan kemur til og aðstoðar ef upp koma vandamál með innklæðninguna.” Að lokum hvað kostar að kaupa líkkistu í dag frá Smíðastofu Stefáns? ,,Ódýrustu kisturnar, sem eru hvítar kistur, klæddar að innan kosta kr. 55.000,- en dýrusta kisturnar sem eru massívar eikarkistur, einnig klæddar að innan kosta kr. 96.000,-.“ Ekki var laust við að blm. fyndi til ákveðinnar lotningar, gagnvart þessum smiði lokagististaðs líkamans, þegar hann yfirgaf verkstæðið, sem hafnaði pöntun blm. á þeim forsendum að ómögulegt væri að geyma kistuna þá áratugi sem blm. taldi sig eiga ólifaða, geymslupláss væri þegar af skornum skammti. jak
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024