Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Starf sjúkraliðans léttara í dag
Birna Björk Skúladóttir, sjúkraliði, ásamt Ingvari Georg Ormssyni.
Mánudagur 15. apríl 2019 kl. 17:16

Starf sjúkraliðans léttara í dag

„Mér þykir þetta starf mjög skemmtilegt og fjölbreytt. Engir dagar eins. Í dag er starf sjúkraliðans mun léttara líkamlega en áður því það er gríðarlegt úrval af hjálpartækjum. Alls konar lyftarar og skutlur, svo erum við mjög dugleg að fylgjast með öllum nýjungum sem koma á markaðinn og fjárfestum í þeim ef við sjáum að þær eru að virka.”

Birna Björk Skúladóttir starfar sem sjúkraliði á Nesvöllum en áður vann hún á Garðvangi þar sem hún hóf störf árið 1996. Hún segir starfið í dag líkamlega léttara en það var áður fyrr vegna allrar tækninnar. „Við gerum dagamun fyrir íbúana okkar þegar ýmsir viðburðir eiga sér stað í þjóðfélaginu, eins og til dæmis þegar íslenska landsliðið er að keppa, Söngvakeppnin er í sjónvarpinu, Ljósanótt og fleiri slíkir viðburðir. Þá höldum við gleðskap á deildunum og allir njóta sem geta tekið þátt. Við gerum það sem við getum til þess að íbúum okkar líði vel og allir taka þátt á eigin forsendum. Jafnvel þó að þú heldur að fólk sé ekki með, þá er það með á sinn hátt. Það er léttara yfir þeim,“ segir Birna og bætir því við að það gefi henni mikið þegar hún sér íbúana blómstra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Eldri borgarar geta verið vannærðir eftir að hafa misst makann og finnst þeir ekki valda því að sjá um sig sjálfir. Það getur verið skelfilegt ástand hjá sumum. Aðstandendur þurfa að fylgjast vel með þegar breytingar eiga sér stað hjá eldra fólki. Það getur tekið fólk allt upp í sex vikur eða lengur að venjast því að búa hér. Fólk leysir upp heimili sitt, kemur hingað og býr í einu herbergi. Margir skrautmunir farnir og fleira sem fólk tengdi við heimili sitt er ekki pláss fyrir í herberginu. Fyrir alzheimersjúklinga getur þetta líka verið mjög krefjandi, því allar umhverfisbreytingar eru erfiðar fyrir þá einstaklinga. Við viljum skapa persónulegt andrúmsloft. Sumir fá margar heimsóknir á meðan aðrir fá færri gesti. Það þarf ekki mikið til að gleðja íbúana okkar. Bara að fara í göngutúr innanhúss er tilbreyting. Aðrir fá að fara á rúntinn. Við virkjum íbúana með okkur til dæmis þegar við bökum pönnukökur eða leggjum fínt á borð.”