Starf ljósmyndarans alltaf jafn skemmtilegt
Sólveig Þórðardóttir ljósmyndari segist alltaf hafa jafn mikla ánægju af því að taka myndir. Um þessar mundir eru þrjátíu ár frá því hún opnaði ljósmyndastofu sína, Nýmynd. Þrjátíu ár í fyrirtækjarekstri og ávallt með sömu kennitölu eru einnig tíðindi nú á síðustu og verstu tímum, þegar reglulega berast fréttir af fyrirtækjum sem fara í þrot. Sólveig ljósmyndari þraukar og hefur lagað rekstur fyrirtækisins að breyttum aðstæðum í samfélaginu.
Verkefni ljósmyndarans eru öll þau sömu í dag og fyrir þrjátíu árum. Myrkraherbergið hefur þó fengið að víkja fyrir nýjustu tækni. Í dag eru allar myndir teknar á stafrænar myndavélar og þar sem áður stóðu framköllunarvélar og stækkarar eru nú öflugir myndaprentarar sem prenta út í mestu mögulegum gæðum og með endingu á myndum yfir 100 ár.
Sólveig sagði í samtali við Víkurfréttir í tilefni af 30 ára afmæli Nýmyndar þann 11. nóvember sl. að tæknibyltingin að fara yfir í stafræna myndatöku úr filmunni, séu stærstu breytingarnar í faginu. Stafrænu myndavélinni fylgi einnig mikið frelsi fyrir ljósmyndarann. Áður var unnið með stóra myndavél á þrífæti í stúdíóinu en nú leiki myndavélin í höndum ljósmyndarans.
Kjörorð Nýmyndar er „myndatökur við allra hæfi“ og segir Sólveig verkefnin vera breytileg. Fjölskyldumyndatökur og brúðkaupsmyndatökur séu fyrirferðarmiklar í stúdíóinu. Þá sé mikið um að fólk komi með börnin sín reglulega í myndatöku og fylgi þannig eftir uppvaxtarskeiði þeirra í myndum. Þá er farið að færast í vöxt að ömmur og afar mæti einnig með barnabörnin í myndatöku.
Nýmynd býður viðskiptavinum fjölbreytta þjónustu, myndatökur á stofu eða utan stofu. Brúðarmyndatökur, fjölskyldumyndatökur, barnamyndatökur, fermingarmyndatökur, módelmyndatökur, passamyndatökur ásamt eftirtökum af gömlum myndum. Jafnframt er að sjálfsögðu boðið upp á ýmsa möguleika í stækkunum og römmum fyrir myndir.
Það eru ekki bara stærri myndatökur sem Sólveig fæst við eins og fram kemur hér að framan, því daglega koma margir við á ljósmyndastofunni við Iðavelli 7a til að fá teknar af sér myndir í skírteini ýmiskonar eða bara til að láta fylgja með starfsumsóknum. Gömlu góðu passamyndirnar eru orðnar stafrænar eins og allt annað og nú getur fólk valið passamyndirnar sínar sjálft áður en þær eru prentaðar út.
Í tilefni af 30 ára afmæli Nýmyndar var haldinn skemmtilegur leikur sem auglýstur var í Víkurfréttum í síðustu viku. Dregið hefur verið í leiknum og eru úrslitin eftirfarandi:
1. Verðlaun: Myndataka kr. 39.500. - Svava Agnarsdóttir
2. Verðlaun: Myndataka kr. 27.400. - Paulina Pudlik
3. Verðlaun: Myndataka kr. 27.400. - Önundur Haraldsson