Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stærsti róðurinn á ævinni
Arnar Magnússon strandveiðisjómaður á Golu GK.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 26. maí 2024 kl. 10:11

Stærsti róðurinn á ævinni

Arnar Magnússon bjargaði vini sínum, Þorvaldi Árnasyni, úr sjávarháska eftir að flutningaskip sigldi hann niður norðvestur af Garðskaga.

Arnar Magnússon, strandveiðisjómaður á Golu GK, bjargaði lífi Þorvaldar Árnasonar, lyfjafræðings og strandveiðisjómanns, úti fyrir Garðskaga í síðustu viku. Þorvaldur var á leiðinni til fiskjar á Höddu HF þegar fraktflutningaskipið Longdawn sigldi hann niður á siglingaleið um sex sjómílur norðvestur af Garðskaga á þriðja tímanum aðfaranótt fimmtudagsins 16. maí síðastliðinn. Arnar og Þorvaldur hafa þekkst í um fjóra áratugi. Þeir voru saman á sjó í gamla daga og hafa svo verið að fást við strandveiðar á bátum sínum sem þeir gera út frá Sandgerði. Þorvaldur er nýlega byrjaður að stunda sjóinn að nýju. Hann átti Apótek Suðurnesja og Lyfjaval þar til fyrir stuttu að hann seldi reksturinn. Í stað þess að setjast í helgan stein ákvað hann að hafa eitthvað fyrir stafni með sjómennsku.

„Við fylgdumst að þegar við vorum að fara út klukkan tvö og töluðum saman þegar við vorum komnir út fyrir sundið þegar klukkan var tíu mínútur yfir tvö. Við vorum á sömu stefnu hérna norðvestur eftir og hann var aðeins vestan við mig. Ég var að fylgjast með skemmtiferðaskipi sem var að koma og svo sá ég að það var fraktari á ferðinni framar. Hann var svo kominn vestur fyrir mig þegar ég sigli fram á það sem ég hélt að væri gámur í sjónum, því þeir hafa verið að skoppa af þessum skipum. Þá sá ég fiskikar. Það var myrkur og þegar ég kem nær sé ég að þetta er bátur og ég sé nafnið á honum og fékk bara sting í hjartað. Þetta er góður vinur minn sem ég er búinn að þekkja í 40 ár. Báturinn var á hvolfi og ég kallaði strax í Landhelgisgæsluna að fá þyrlu og reyna að gera eitthvað sem fyrst. Ég sagði þeim að hann væri fastur inni í bátnum. Ég gat ekkert gert því báturinn flaut þannig að hann var alveg á hvolfi og hallaði aðeins í stjór og niður að aftan. Ég beið við bátinn og þá skýtur honum upp. Þá hafði hann náð að komast í flotgalla inni í bátnum og náð að brjóta sér leið út. Hann var svo þungur að ég varð að koma með bátinn og draga hann að. Til að ná honum um borð tók ég hann að aftan við stigann. Ég lét hann setjast á grindina og sagði honum að slaka á og aðeins að róa okkur, því við vorum í góðum málum. Gallinn hans var fullur af sjó svo ég varð að skera skálmarnar af til að ná honum um borð. Annars hefði ég ekki náð honum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein komið til Sandgerðis með Höddu HF. VF/Hilmar Bragi Bárðarson

Þegar hann var kominn um borð fékk hann þurr föt og kaffi og við knúsuðumst. Þetta var bara yndislegt. Ég hafði fengið sting í hjartað en þarna fékk ég gleðina í hjartað á ný þegar ég var búinn að ná honum um borð. Þetta er það besta sem nokkur sjómaður getur tekið þátt í, að bjarga öðrum.“

Varstu þarna búinn að sjá skemmdir á skrokknum á bátnum hjá honum?

„Nei, hann hallaði þannig og ég var að reyna að sjá ljós inni í bátnum hjá honum og hvort hann væri þar. Það var verst að ég gat ekkert gert.“

Vissi hann hvað gerðist?

„Hann sagði að það hafi bara verið högg. Mér datt strax í hug að það hafi verið fraktskipið. Ég lét líka Landhelgisgæsluna vita af því. Það passaði miðað við fjarlægðina í skipið. Það var alveg blíða og ekkert að sjónum. Ef þú siglir á rekald á svona bát, þá fer hann ekki á hvolf, það fer bara skrúfan og stýrið. Þetta er fimm tonna bátur og það þarf eitthvað mikið til að svona bátur fari á hvolf.“

Arnar tekur strax stefnuna á Sandgerði með Þorvald þar sem sjúkrabíll beið þeirra. Farið var með Þorvald í skoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en hann hafði aðeins vankast við áreksturinn við flutningaskipið. Arnar tók hins vegar stefnuna aftur á miðin og fiskaði vel.

„Maður uppsker eins og maður sáir. Ég er búinn að læra það í lífinu og það gerðist þarna.“

Arnar Magnússon, strandveiðisjómaður á Golu GK, kemur í land með flotbúninginn sem hann þurfti að skera af Þorvaldi.

Er þetta þinn stærsti róður?

„Þetta er stærsti róðurinn á ævinni. Ég er búinn að vera 44 ár til sjós og þetta er stærsti róður sem ég hef nokkru sinni farið og ég vona að ég þurfi aldrei aftur að fara svona róður.“

Þegar Víkurfréttir ræddu við Arnar var hann nýbúinn að landa afla dagsins. Hann hafði um morguninn heyrt í Þorvaldi og hann hafi verið nokkuð brattur.

Ætlar hann aftur á sjóinn?

„Ætli ég taki hann ekki bara með mér. Það er sennilega öruggast að hann sé bara með mér.“

Arnar segir að þegar hann hugsar ferlið til baka þá hafi verið erfitt að geta ekkert gert, því það hefði getað stofnað honum sjálfum í hættu. Það hafi því verið mikil gleði að sjá Þorvaldi skjóta upp við hliðina á bátnum. Björgunin hafi þannig tekið stuttan tíma og þeir hafi verið fljótir í land. Hann hafi siglt Golu GK á sparisiglingu í land, þ.e. það hafi verið aðeins meiri eldsneytisgjöf en vanalega.

Arnar vill leggja áherslu á að menn tali saman úti á sjó. „Ef við hefðum ekki verið búnir að tala saman, þá er ekki víst að það hafi farið svona vel. Menn verða að hafa samband sín á milli en vera ekki að þverskallast einhversstaðar og enginn veit neitt og þú lendir kannski í ógöngum. Að hafa samskipti er lykilatriði,“ segir Arnar Magnússon, strandveiðisjómaður, í samtali við Víkurfréttir.

Um sjóslysið

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá Arnari Magnússyni vegna annars strandveiðibáts klukkan 02:42 þess efnis að bátur í grenndinni væri að sökkva um sex sjómílur norðvestur af Garðskagavita.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út á hæsta forgangi ásamt sjóbjörgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum. Þá voru nálæg fiskiskip og bátar beðin um að halda á staðinn.

Skömmu eftir að neyðarkallið barst Landhelgisgæslunni hafði Arnar Magnússon aftur samband og tjáði varðstjórum í stjórnstöð að hann væri búinn að bjarga manninum úr sjónum en bátsverjanum tókst að komast í björgunargalla þar sem bátur hans maraði í kafi á hvolfi. Maðurinn var kaldur eftir veruna í sjónum og var siglt með hann til Sandgerðis, þar sem sjúkrabíll beið hans.

Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein dró bátinn til Sandgerðis.

Flutningaskipinu Longdawn var stefnt til hafnar í Vestmannaeyjum þar sem skipstjóri og tveir stýrimenn voru handteknir. Skipstjórinn og annar stýrimaðurinn voru úrskurðaðir í farbann í Héraðsdómi Reykjaness. Ummerki um árekstur eru á báðum sjóförunum. Ummerki voru á Höddu HF eftir perustefni Longdawn og á perustefni flutningaskipsins mátti sjá ummerki eftir áreksturinn.

Landhelgisgæslan vill koma á framfæri sérstökum þökkum til skipstjóra strandveiðibátsins sem sýndi mikið snarræði við björgun mannsins og einnig til annarra viðbragðaðila sem brugðust við með skjótum og fumlausum hætti.