Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stæltir Sandgerðingar
Föstudagur 29. nóvember 2013 kl. 09:03

Stæltir Sandgerðingar

Gömul og góð mynd úr safni VF

Það leynist ýmislegt í hirslum Víkurfrétta. Við teygðum okkur ofan í gamlan rykfallinn myndakassa í geymslu og drógum upp þessa skemmtilegu mynd. Þarna má sjá nokkra vel valda Sandgerðinga svona líka stælta og spengilega. Kapparnir eru eftirfarandi (standandi frá vinstri): Heiðmundur B. Clausen, Ólafur Þór Ólafsson, Pálmar Guðmundsson, Viggó Maríasson og sitjandi er Smári Guðmundsson. Víkurfréttir náðu tali af bæjarfulltrúanum Ólafi Þór sem man vel eftir þessum myndum þó ártalið sé ekki alveg á hreinu.

„Þarna er um að ræða hljómsveitina Nerðir, sem var til í mjög stuttan tíma og kom fram einu sinni eða tvisvar. Þetta band spilaði frumsamið grunge-rokk og voru flestir í bandinu að spila með einhverjum öðrum böndum líka. Við erum allir Sandgerðingar sem vorum í þessu bandi,“ segir Ólafur.

„Ef ég man rétt var þessi mynd tekin í tengslum við tónleika sem voru haldnir þar sem Players er núna þar sem ýmsar ungar hljómsveitir af svæðinu komu fram. Ártalið er ekki á hreinu en Smári var mjög ungur þannig að líklega eru um 20 ár síðan þetta var tekið. Gæti trúað því að þetta sé fyrsta hljómsveitin sem Smári spilaði með opinberlega. Ég man að Rúnar heitinn Júlíusson var einn af þeim sem stóð að þessum tónleikum. Mig minnir að allar hljómsveitirnar hafi mætt í heimahús einhvers staðar í Keflavík og þar var þessi mynd tekin,“ segir Ólafur um leið og hann þakkaði blaðamanni fyrir að birta myndina góðu í blaðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024