Stæðilegur víkingur
Helga Valdimarssyni er margt til lista lagt. Steypa leikur í höndunum á honum og síðasta áratuginn eða svo hefur hann verið að móta styttur í ýmsum stærðum í steinsteypu. Eitt af hans stærstu verkum er nú að fæðast í innkeyrslunni við heimili hans í Garði.
Um þriggja metra hár víkingur með öxi og skjöld hefur risið þar. Verkið hefur verið á þriðja mánuð í smíðum og vegur um eitt tonn.
Umræddur víkingur sótti mjög á Helga og hugmyndin lét hann ekki í friði. Í samtali við Suður með sjó sagði Helgi að hann hafi kynnt víkinginn fyrir Árna Sigfússyni bæjarstjóra í Reykjanesbæ og hugmyndin sé að setja víkinginn á stall við Reykjanesbrautina og láta hann vísa veginn í Víkingaheima í Reykjanesbæ.
Framundan eru mörg önnur spennandi verkefni hjá Helga en garðurinn við heimili hans á Urðarbraut í Garði ber þess merki að þar býr listamaður.
(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)