Staðurinn minn: „Tate Modern kallar á mig reglulega“
„Ég ætla að velja Tate Modern í London sem staðinn minn. Alveg frá því ég kom þarna inn fyrst fyrir um 10 árum síðan hef ég verið heilluð af þessu safni,“ segir tónlistarkonan Elíza Geirsdóttir Newman þegar hún er spurð um þann stað sem sé í hvað mestu uppáhaldi hjá henni.
Það sem er Tate Modern safnið í dag var áður orkuveita eða Bankside Power Station og stendir við Thames ánna, beint á móti St.Pauls í London. „Þegar ég labbaði fyrst inn í Turbine Hall innganginn hélt ég að ég væri kominn inni í Dauðastjörnuna í StarWars þetta var svo magnað, stórt og dramatíkst í sniðum að ég féll alveg fyrir þessu.“
„Í gegnum árin hef ég farið oft á Tate Modern á listasýningar og dregið með alla sem með mér nenna. Mér er þar minnistæðar tvær sýningar, sem ég fór að sjá með móður minni heitinni Eygló Þorsteinsdóttur og höfðum við mjög gaman af.
Önnur var Picasso/Matisse þar sem þessum tveimur meisturum var skellt saman í eina sýningu með mögnuðum áhrifum, orkan sem skein úr verkunum var geggjuð, og hinn sýningin var Sólin hans Ólafs Elíassonar.
Í þeirri sýningu var Turbine Hall notað á snilldarlegan hátt þar sem sólin blasti við manni þegar maður kom inn og dáleiddi mann um leið! Við fórum og lögðumst á gólfið fyrir framan sólina og gleymdum öllu nema stund og stað. Allavega Tate Modern kallar á mig reglulega og ég fer þar eins oft og og ég get, jafnvel bara til að fá mér kaffi og fylgjast með mannlífinu. Mæli eindregið með því fyrir alla sem heimsækja London,“ sagði Elíza að lokum