Staðurinn minn: La Paz í Bólívíu
Við fengum Maríu Skagfjörð Illugadóttur 21 árs Keflvíking til að segja okkur frá eftirlætis staðnum sínum. La Paz höfuðborg Bólívíu varð fyrir valinu en María fór þangað í nýlegu ferðalagi sínu um suður-Ameríku. „Þetta er áhugaverðasti staðurinn sem ég hef heimsótt á ferðalagi mínu,“ segir María en La Paz er hæsta höfuðborg í heimi, eða 3660 metra yfir sjávarmáli. „Ég Byrjaði á því að skoða borgina. Fór í skoðunarferð þar sem við enduðum á að skoða dal sem heitir Moon valley.
Við hliðina á dalnum er hæðsti golfvöllur í heimi og þykir mjög spennandi að spila á honum þar sem kúlan fer mun lengra heldur en hún gerir vanalega.
Ég fór í áhugaverðan hjólatúr á vegi sem heitir Death Road sem jafnan er talinn vera hættulegasti vegur í heimi, þar sem vegurinn er nú ekki breiður og fallið niður er líka svakalega hátt. Byrjað var að hjóla í 4200 metra hæð og við hjóluðum niður í 1200 metra hæð. Þessi ferð var samt frábær í alla staði, þrátt fyrir smá hræðslu áður en við fórum af stað.
Þá fannst mér hostelið í La Paz alveg yndislegt, þetta er besta hostel sem ég hef verið á í ferðalaginu mínu. Það heitir Loki og er risastórt hús þar sem nokkur hundruð ferðamenn komast fyrir. Alltaf ótrúlega gaman þarna og allir mjög vinalegir. Rúmin þarna skemmdu heldur ekki fyrir, þar sem maður er yfirleitt að sofa í kojum, en þarna voru venjuleg rúm sem var mjög notalegt.“
Hér má sjá myndir frá La Paz sem María tók á ferðalagi sínu.
Séð yfir borgina úr hjólreiðatúrnum
Moon Valley
Markaðurinn í La Paz
Stórhætulegur vegur í fjallshlíðinni
Á ystu nöf