Sprakk af gleði
Samfestingurinn, Söngkeppni Samfés, var haldinn með pompi og prakt laugardaginn 3. mars. Þrjátíu atriði frá 30 mismunandi félagsmiðstöðvum sem öll voru sínum félagsmiðstöðvum til sóma. En fremst á meðal jafningja var Melkorka Rós Hjartardóttir úr félagsmiðstöðinni Borunni í Vogum á Vatnsleysuströnd en hún söng fallegt lag Elton John, Your song, sem útleggst á íslensku sem Eilíf ást. Í öðru sæti varð svo önnur Suðurnesjamær, Sólborg Guðbrandsdóttir úr Fjörheimum, Reykjanesbæ og því má segja að Suðurnesjamenn hafi sannarlega átt keppnina í ár.
Melkorka Rós Hjartardóttir er 16 ára stúlka úr Vogunum sem gerði sér lítið fyrir og sigraði Söngkeppni félagsstöðva um síðastliðna helgi. Hún söng lagið Your song úr smiðju Elton John en Bríet Sunna Valdimardóttir og Gísli Þór Þórarinsson sömdu íslenskan texta við lagið.
Melkorka hefur verið að syngja síðan hún var tveggja ára gömul en hún kemur úr fjölskyldu sem fæst töluvert við tónlist. Hún er miðjubarn í hópi sjö systkina en eldri systir hennar syngur líka og faðir hennar spilar á píanó. Í stofunni á heimili fjölskyldunnar í Vogunum er flygillinn þakinn nótum og á gólfinu liggur magnari og við hann er tengdur hljóðnemi. „Við systurnar syngjum reglulega hérna og pabbi spilar jafnvel undir, hér er oft mikið um að vera,“ segir Melkorka en þær systur gerðu m.a. geisladisk fyrir síðustu jól sem gefinn var vinum og vandamönnum í jólagjöf. Um 12-13 ára aldur byrjaði Melkorka svo að koma fram í skólanum. „Þar sungum við vinkona mín á samverustundum og fólk hrósaði mér fyrir sönginn,“ við það jókst sjálfstraust hennar og hún byrjaði að æfa sig heima fyrir. Hún segist ekki hafa verið feimin við að koma fram í gegnum tíðina og hana langar að læra söng í nánustu framtíð. „Það er bara svo dýrt,“ segir hún en hún er sjálflærð enn sem komið er. Hún hefur leitað til annarrar söngkonu úr Vogunum, Bríetar Sunnu Valdimarsdóttur, og hún hefur leiðbeint henni í söngnum. „Hún hjálpaði mér mjög mikið sem og fyrrum textílkennarinn minn, en hún var sífellt að hvetja mig áfram og sagði að ég væri fædd til þess að syngja.“
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Melkorka tekur þátt í söngkeppni Samfés en í ár var hennar þriðja framlag í keppninni. Fyrstu tvö skiptin komst hún í undanúrslit en aldrei í lokakeppnina sjálfa. Hún tók einnig þátt í jólastjörnum Björgvins Halldórssonar á síðasta ári og komst þar í 15 manna úrslit.
Melkorka er uppalin í Vogunum en þangað fluttist hún þegar hún hóf nám í grunnskóla. Hún ætlar sér að hefja nám í FS næsta haust en hún er frekar heimakær og vill ekki vera í skóla sem er of langt í burtu.
Hún segist ekki hafa verið stressuð þegar hún stóð á sviðinu með kynnunum en fyrir keppnina örlaði fyrir smá kvíða. „Þegar ég var komin vel inn í lagið þá byrjaði ég að nötra og að því loknu kom nett spennufall.“ Á keppninni, sem haldin var í Laugardalshöll, voru líklega staddir á bilinu 2-3000 unglingar en Melkorka segir að henni finnist það auðveldara að syngja fyrir svona fjölda heldur en eina manneskju.
Hræðilegur hljóðfæraleikari
Ég heyrði lagið í Moulin Rouge og var búin að heyra það í flutningi Elton John en ég féll fyrir því þegar ég heyrði Elle Goulding syngja það. „Ég var löngu búin að velja þetta lag og byrjuð að æfa það fyrir nokkru síðan. Melkorka segist hafa tekið þátt til þess að hafa gaman af, og til þess að vera með. „Líka til að láta ljós mitt skína en ég fæ töluvert út úr því að koma fram og syngja. Það bætir t.d. sjálfstraustið mikið þegar að fólk hrósar manni.“ Hana langar til þess að semja eigin tónlist en að eigin sögn er hún hræðilegur hljóðfæraleikari. Hún semur eigin texta en gafst ekki tími til þess að semja texta við lagið sem færði henni sigurinn.
Hún tekur sjálfa sig upp og fer yfir það sem betur má fara og því má segja að hún sé sinn mesti gagnrýnandi og þannig segist hún læra hvað mest. Hún segist pæla lítið í fyrirmyndum eða slíku, hún reynir bara að vera hún sjálf og vera jákvæð.
Hún segist fá smá athygli eftir sigurinn og vel var tekið á móti henni í Vogunum við heimkomuna. Einnig biðu hennar fjöldi vinabeiðna og tilkynninga á facebook. Þetta kom fjölskyldu hennar töluvert á óvart en þau horfðu á keppnina heima í sjónvarpinu. „Marín, eldri systir mín hoppaði um af gleði og allir misstu sig af gleði. Þegar ég kom svo heim fékk ég eitt stórt hópknús og haldin var veisla um kvöldið.“
En getur Melkorka lýst tilfinningunni þegar tilkynnt var um sigurvegara? „Ég var að horfa í kringum mig þegar sigurvegarinn var tilkynntur því mig langaði að sjá svipinn á þeim sem hefði unnið keppnina. Ég var ekkert að búast við því að ég ynni. Svo var búið að tilkynna nafnið og ég heyrði öskur frammi í sal og svo veit ég ekki fyrr en byrjað er að ýta við mér fram á svið. Þá átta ég mig og gjörsamlega spring af gleði, ég er enn að reyna að átta mig á þessu,“ segir þessi efnilega söngkona og blaðamaður hvetur fólk til að leggja nafnið Melkorka Rós Hjartardóttir á minnið, eflaust á eftir að heyrast meira frá henni í framtíðinni.