Sporhundurinn Pippi að verða klár í slaginn
Pippi, sporhundur Björgunarsveitarinnar Suðurnes, verður tilbúinn til leitarstarfa á næstu vikum að sögn Gunnars Stefánssonar formanns Björgunarsveitarinnar Suðurnes á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Pippi er 2 ára gömul, af svokölluðu blóðhundakyni, og kemur frá Svíþjóð en þar fékk hún grunnþjálfun sína á sínum tíma. Suðurnesjamenn eru mjög ánægðir með hana og finnst hún lofa góðu. Tveir menn sjá um þjálfun hennar, þeir Halldór Halldórsson, sem hefur verið með hunda í yfir 20 ár og Jóhann Bjarki Ragnarsson sem hefur verið heldur skemur í hundabransanum. Þeir sjá um leitarhunda Suðurnesjasveitarinnar og er Pippi þriðji hundurinn sem bætist í hópinn hjá þeim.