Spilað og sungið fyrir göngugarpa
Talsverður fjöldi fólks leggur leið sína í Reykjaneshöllina á degi hverjum til að ganga sér til heilsubótar. Starfsmenn hallarinnar sögðu í samtali við Víkurfréttir að á milli 80 og 100 manns kæmu á hverjum morgni til að ganga, en í gær var skemmtileg tilbreyting þar á.
Tvær hressar konur sem eru meðal fastagesta hallarinnar, þær Guðrún og Sara, mættu þá með gítar og harmoniku og tóku lagið fyrir gönguhrólfa. Í sarpi þeirra voru fjölmörg gömul og góð sönglög og að sjálfsögðu var tekið undir.
Viðmælendur Víkurfrétta voru á einu máli um að framtakið væri frábært og vonuðust til að þær stöllur myndu endurtaka leikinn innan tíðar.
Vf-mynd/Þorgils