Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Spennt þegar pabbi var að fara á sjó og þegar hann var að koma heim
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 1. júní 2024 kl. 06:04

Spennt þegar pabbi var að fara á sjó og þegar hann var að koma heim

Kolbrún Dögg Ólafsdóttir laumaði sér í mömmuholu þegar faðir hennar fór á sjó

Það eru ekki bara sjómennirnir sem finna fyrir fjarverunni, á hinum endanum er venjulega eiginkona og ekki síst börn. Kolbrún Dögg Ólafsdóttir er 25 ára gömul í dag, dóttir Ólafs Eiríkssonar sem hefur verið frystitogarasjómaður síðan Kolla man eftir sér.

„Ég man að ég var bæði spennt þegar pabbi var að koma heim af sjónum en svo var ég líka spennt þegar hann var á leið á sjóinn því þá fékk ég að sofa upp í hjá mömmu. Svona var þetta líklega fram að fermingu, ég ætla nú ekki að viðurkenna að ég hafi sofið lengur upp í eftir það. Það var mjög gaman þegar pabbi kom í land, ég var alltaf spennt að mæta á bryggjuna að taka á móti honum og fékk að kíkja aðeins um borð. Þegar heim var komið gat maður svo nánast beðið um allt fyrstu dagana í fríinu hans og pabbi lét allt eftir mér. Svo komust hlutirnir í reglu og ég var alltaf jafn spennt þegar hann var að fara aftur á sjóinn, þá vissi ég að ég fengi minn stað í mömmubóli. Ég minnist þessa tíma bara með bros á vör, svona var bara okkar líf og maður vandist því að pabbi væri í burtu. Hann er ennþá á sjónum en ég finn auðvitað ekkert fyrir því í dag, orðin fullorðin kona,“ sagði Kolla að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekki mest spennandi starfið

Starf útilegusjómannsins er af mörgum ekki talið það mest spennandi vegna langra fjarvista frá fjölskyldu og vinum. Sjómaðurinn er í burtu kannski í mánuð og hittir engan nema aðra áhafnarmeðlimi. Hér áður fyrr var algengt að frystitogarasjómenn væru í burtu svo mánuðum skiptir, þó með stuttu stoppi á milli túra.

Frystitogarar Þorbjarnar, Tómas Þorvaldsson og Hrafn Sveinbjarnarson, eru komnir í kerfi þar sem tvær áhafnir eru og líklega eru flestir ef ekki allir togarar komnir í slík kerfi. Þá er sjómaðurinn á sjó í u.þ.b. 30 daga, er á hálfum hlut og svo tekur næsta áhöfn við. Hér áður fyrr var algengt að sjómaðurinn reri í svokölluðu tveir og einn kerfi, það er hann fór túr, kom í land og var í í landi skv. fyrirfram lögbundnu stoppi m.v. fjölda daga í túrnum á undan, fór svo aftur í aðra u.þ.b. 30 daga, tók svo frítúr næst. Þeir hörðustu réru kannski fjóra til fimm túra í röð, á móti einum frítúr.