Spennt fyrir Ljósanótt eftir tveggja ára pásu
Hjördís Lilja Traustadóttir ferðaðist mikið í sumar en hún fór meðal annars til Tenerife „eins og flest allir Íslendingar“. Hún er að hefja sitt annað ár í Hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og ætlar að spila körfubolta með Keflavík í vetur. Hún er spennt fyrir Ljósanótt eftir tveggja ára pásu vegna Covid en hún ætlar að kíkja niður í bæ og á Ljósanæturballið.
Hvernig varðir þú fyrsta sumarfríinu án takmarkana?
„Ég skellti mér til Tenerife eins og flest allir Íslendingar, ég fór í helgarferð til Suður-Frakklands, fór mikið upp í sumarbústað og svo í veiði í Víðidalsá.“
Hvað stóð upp úr?
„Ferðin til Suður-Frakklands stóð sérstaklega upp úr.“
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„Hvað ég náði að gera mikið í sumar á stuttum tíma.“
Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
„Já, sumarbústaðurinn stendur alltaf fyrir sínu.“
Hvað ætlar þú að gera í vetur?
„Ég ætla að byrja annað árið mitt í Hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og spila körfubolta með Keflavík.“
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
„Ljósanótt er skemmtileg og viðburðarík hátíð og eftir tveggja ára pásu vegna Covid er ég spennt að taka þátt í hátíðinni.“
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
„Ekkert mikið planað eins og er en ég ætla meðal annars að fara á Ljósanæturballið og kíkja niður í bæ.“
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
„Það er örugglega þegar ég var í grunnskóla og við fengum að sleppa blöðrunum, það var alltaf rosa skemmtilegt.“