Spennandi tímar framundan hjá BYKO
-Systa nýráðinn verslunarstjóri hefur unnið hjá BYKO frá opnun á Suðurnesjum
Hún var um tvítugt þegar hún byrjaði í Járn og skip, var í barnsburðarleyfi þegar stóri bruninn átti sér stað sumarið 1996 og verslunin gjöreyðilagðist. Í dag er hún verslunarstjóri hjá BYKO en þar hefur hún starfað síðan haustið 1996 þegar verslun BYKO opnaði í nýju húsnæði á sama bletti og Kaupfélagið var áður til húsa með byggingarvörudeildina, Járn og skip. Við tókum hús á Sveinbjörgu Sigurðardóttur eða Systu eins og hún er alltaf kölluð.
Man tímana tvenna
„Já, ég er búin að vinna lengi hér á þessum sama bletti, hjá tveimur fyrirtækjum. Fyrst vann ég í Kaupfélaginu hérna, hjá Járn og skip. Þá var ég um tvítugt og hafði verið í sumarvinnu hjá þeim en vann einnig með skólanum. Eftir stúdentspróf í FS varð ég fastráðin hjá þeim og vann þá með gömlu körlunum, þeim Hafsteini og Kolla, sem voru góðir vinnufélagar. Þeir eru báðir fallnir frá. Ég var í barnsburðarleyfi þetta sumar sem stóri bruninn varð hjá Járn og skip. Það var svakalegur bruni sem átti sér stað eftir lokun, svo mikill eldsmatur var í versluninni sem gerði brunann mjög hættulegan,“ segir Systa alvarleg í bragði en annars er hún mjög hláturmild kona. Við rifjum upp þessa gömlu tíma og brunann, sem sjálfsagt er í fersku minni þeirra sem bjuggu þá í Keflavík. Vitað er að bruninn í Járn og skip hafi verið mjög hættulegur þeim slökkviliðsmönnum sem voru þarna við slökkviliðsstörf, þegar stór og mikil sprenging varð í versluninni mitt í eldhafinu og öllum var skipað að forða sér út.
BYKO er góður vinnustaður
„Ég hef mjög gaman af starfi mínu hjá BYKO enda er ótrúlega góður starfsandi hér og við hugsum vel hvert um annað. Við erum eins og lítil fjölskylda. Margir af hinum fastráðnu hafa verið með okkur í tíu ár og jafnvel upp í tuttugu og fimm ár. Fólki líður vel hjá okkur. Nú erum við að vinna í að stytta vinnuvikuna hjá fastráðnu starfsfólki okkar og fólk skiptist á að vinna ýmist til klukkan 16:00 eða til klukkan 18:00 en pössum samt upp á að viðhalda sama þjónustustigi. Starfsfólkið er mjög þakklát fyrir styttingu vinnuvikunnar og finnst gott að koma fyrr heim til sín. Við erum með tuttugu fasta starfsmenn og í kringum átta framhaldsskólanemendur sem vinna aukavinnu hjá okkur. Við erum með mjög gott starfsfólk sem hefur víðtæka reynslu og þekkingu á öllu því sem við kemur að byggingu og viðhaldi húsa.“
Systa ásamt hjónunum Þórarni Péturssyni og Þóru Hafsteinsdóttur.
Nýtt starf og nýir tímar
„Í október síðastliðnum tók ég við verslunarstjórastöðu hér í BYKO. Annars hef ég fleiri áhugamál fyrir utan vinnuna. Ég er fjölskyldumanneskja og svo hef ég verið að læra sálfræði sem nýtist mér í starfi. Ég hef ótrúlega gaman af mannlegri hegðun og var byrjuð í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri þegar maðurinn minn fór út til Noregs að vinna. Mér fannst ég þá hafa svo mikinn tíma því krakkarnir voru orðnir stórir og jók við mig í námi og kláraði BA í sálfræði síðastliðið vor. Þetta nám nýtist mér klárlega í starfi hér sem verslunarstjóri enda er ég alltaf í mannlegum samskiptum, það er bara svoleiðis.“
Framtíðin er umhverfisvæn hjá BYKO
„Sem verslunarstjóri þá kem ég meira að stefnumótun núna en allir verslunarstjórar og framkvæmdastjórar hjá BYKO hittast reglulega og funda. Það eru spennandi tímar framundan og miklar breytingar í umhverfismálum sem munu einnig hafa áhrif á verslanir BYKO. Það er umhverfisnefnd starfandi sem hefur það að markmiði að minnka sóun og leita leiða til að gera fyrirtækið umhverfisvænna. Við vorum með kynningu hjá stærstu verktökunum hér á svæðinu og kynntum fyrsta umhverfisvæna heimilið í byggð. Þetta hús í Urriðaholti er fyrsta svansvottaða heimilið á landinu og var verkefni einkaaðila sem BYKO tók fullan þátt í. Þessi hjón byggðu sér heimili sem þau vildu að væri án allra krabbameinsvaldandi efna og efna sem gætu haft slæm áhrif á hormónajafnvægi líkamans. BYKO var í samstarfi við þau og við lærðum margt af þessu verkefni, því við sáum um að útvega þeim efnið sem þurfti en varan þurfti að vera umhverfisvæn og vottuð. Það er heilmikið að læra varðandi þetta og í dag höfum við bæði þekkinguna og aðgang að vottuðu efni. Allt timbrið sem við seljum kemur til dæmis úr sjálfbærum skógi. Áður en samstarfið hófst við þessa húsbyggjendur þá gerðum við okkur almennt enga grein fyrir því hvaða efni væru vottuð. Heldurðu að það væri ekki flott að vera með heimili sem væri svansvottað en það gefur til kynna heilbrigt umhverfi. Nú stefnir BYKO í þessa umhverfisvænu átt og næsta skref er að koma þessari vitneskju til verktaka og einkaaðila sem eru í byggingarframkvæmdum. Almenningur er að vakna og átta sig á mikilvægi umhverfisverndar. BYKO vill aðstoða og vera samferða í þeirri vegferð viðskiptavina okkar.“