Söngur Súlu gefin út í Vogum
Um síðustu helgi hélt KRASS veislu í tilefni útgáfu bókarinnar Söngur Súlu eftir Hrafnhildi Valgarðsdóttur. Þetta er fyrsta skáldsaga höfundar en Hrafnhildur hefur um árabil verið ástsæll barna- og unglingabókahöfundur. Hún er búsett í Vogum.
Hún hefur gefið út yfir tug barna og unglingabóka auk smásagnasafnanna Í rangri veröld og Olnbogabörn. Hrafnhildur hefur hlotið margskonar verðlaun fyrir ritstörf m.a. fyrstu verðlaun í alþjóðlegri samkeppni fyrir smásöguna Jólagjöf heilagrar Maríu.
Söngur Súlu segir frá ungu fólki af landsbyggðinni sem leitaði ævintýra í Reykjavík um miðja síðustu öld. Þau keyptu sér hálfan bragga og byrjuðu búskap. Þar upplifðu þau miklar raunir sem sköpuðu þeim hörmuleg örlög. En lífið hélt áfram og fylgst er með einu barni þeirra, Súlu sem síðan leiðir söguna.