Söngskóli Emilíu opnar í Innri Njarðvík
-Lengi verið draumur að opna söngskóla í Reykjanesbæ
Emilía Björg Óskarsdóttir, fyrrum söngkona Nylon, mun í sumar opna söngskóla í Reykjanesbæ fyrir börn og unglinga. Á Facebook-síðu söngskólans segist Emilía lengi hafa átt sér þann draum að opna söngskóla í Reykjanesbæ. Þar mun hún leggja áherslu á jákvæðni, gleði, styrkingu sjálfsmyndar og öryggis nemendanna.
Samkvæmt síðunni verða námskeiðin haldin í safnaðarheimilinu í Innri-Njarðvíkurkirkju og þar séu börn og unglingar fæddir á árunum 2001 til 2009 velkomnir. Á námskeiðunum verði einnig æfð framkoma, túlkun, tjáning, hljóðnematækni og margt fleira.
Íslenska popphjómsveitin Nylon var stofnuð snemma árs 2004 þegar fyrirtæki Einars Bárðarsonar, Concert, stóð fyrir áheyrnarprufum á stúlkum fyrir íslenska stúlknasveit. Þann 14. júlí 2007 sagði Emilía skilið við Nylon vegna persónulegra ástæðna.