Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Söng áður en hún fór að tala
Föstudagur 4. apríl 2014 kl. 15:39

Söng áður en hún fór að tala

Viðtal við Ásdísi Rán fulltrúa FS í Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin á Akureyri um helgina en keppnin verður í beinni útsendingu á Rúv annað kvöld klukkan 20:30. Hin 17 ára gamla Keflavíkurmær Ásdís Rán Kristjánsdóttir er fulltrúi FS í keppninni en hún mun flytja hið ódauðlega lag Bítlanna, Let it be. Ásdís segist vera hrifin af boðskapnum í laginu og auk þess hefur hún elskað Bítlana frá barnsaldri.

Hún hefur æft stíft að undanförnu ásamt Arnóri Vilbergssyni organista með meiru. Ásdís hefur ekki alveg fundið fyrir taugaspennu ennþá en hlakkar til að stíga á stokk á Akureyri.
„Þetta leggst bara rosalega vel í mig, ég er samt ekki alveg búin að átta mig á þessu, er ennþá svo róleg yfir þessu,“ segir Ásdís sem hefur verið að syngja alveg síðan hún man eftir sér. „Söngurinn hefur einhvern veginn alltaf verið þarna, alveg frá upphafi. Ég held ég hafi byrjað að syngja áður en ég byrjaði að tala,“ segir hún létt í bragði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ásdís syngur um þessar mundir með kórnum Vox Felix en meðlimir hittast einu sinni í viku. Hún hefur auk þess verið að syngja annað slagið með hljómsveitinni Sígull.
Það er fleira en söngurinn sem vekur áhuga Ásdísar en hún hefur mikinn hug á því að gerast leikkona í framtíðinni. „Mig hefur alltaf langað til að vera annaðhvort söng- eða leikkona, eða jafnvel bæði,“ segir Ásdís en hefur hún hugsað út í að sækja um í leiklistarskólanum þegar fram líða stundir? „Ég hef ekki hugsað svo langt en það væri mjög gaman að gera það, enda langar mig helst að vinna við þetta, svo það væri best að vera með menntunina.“

Nú stendur yfir verkfall framhaldsskólakennara eins og alþjóð veit og nemendur eyða tíma sínum á misjafnan hátt. Ásdís segir að það sé vissulega ágætt að vera í smá fríi frá skólanum en þegar verkfallinu ljúki verði þetta einfaldlega bara vesen. Hún viðurkennir að hún hafi nú ekki alveg verið dugleg að kíkja í skólabækurnar, en tíminn hefur verið nýttur vel til æfinga fyrir söngkeppnina.

Ásdís í léttri yfirheyrslu

Áhugamál? Að vera með vinum mínum, lesa góðar bækur og horfa á þætti finnst mér líka rosa skemmtilegt. Þó svo að ég geti horft endalaust á þætti þá get ég eiginlega aldrei horft á myndir.

Af hverju þetta lag?
Því það hefur góðan boðskap. Svo er þetta með Bítlunum og allt sem Bítlarnir gerðu eru meistaraverk.

Hvað kom til að þú fórst að hlusta á Bítlana?
Ætli ég ekki bara alist upp við það að hlusta á gamla tónlist og kann mun betur að meta hana heldur en nútímatónlist.

Eftirlætis:
Kennari: Rósa dönskukennari er langbesti kennarinn
Fag í skólanum: Íslenska tvímælalaust
Sjónvarpsþættir: Akkúrat núna eru Pretty little liars í uppáhaldi
Kvikmynd: Lord of the rings eða Grease
Hljómsveit/tónlistarmaður: Meistari Bob Marley
Leikari: Leonardo Dicaprio
Vefsíður: Facebook og Youtube
Flíkin: Ullarpeysan mín
Skyndibiti: Villaborgari klikkar seint
Hvað tónlist/lag fílarðu í laumi (guilty pleasure)? Ég er örlítill rokkari í mér og get eytt tímunum saman í það að hlusta á rokktónlist.