Solla stirða gengin út
Ljósanótt í Reykjanesbæ gefur tilefni til ýmissa hátíðahalda. Margir nota tækifærið og bjóða heim í grillveislu og gera sér glaðan dag og aðrir kappkosta við að komast yfir sem mest af Ljósanæturdagskránni enda um auðugan garð að gresja.
Í ár var nokkuð um að pör notuðu Ljósanæturhelgina til þess að ganga í hjónaband en vinkonur Lindu Ásgeirsdóttur notuðu Ljósanóttina til þess að „gæsa“ Sollu stirðu frá Latabæ. Þegar Linda hafði lokið framkomu sinni sem Solla stirða á stóra sviðinu á laugardegi Ljósanætur beið hennar fríður vinkonuhópur.
Eins og sönnum gæsaveislum sæmir var þema í veislunni en það var sjötti áratugurinn og þurfti Linda sérstakan förðunarfræðing úr hópnum til þess að setja upp andlit frá sjötta áratugnum. Gæsin Linda notaði svo blíðviðrið með vinkonum sínum til þess að skemmta sér á þessum síðasta degi sem ógift kona.
VF-myndir/ Páll Ketilsson