Sólborg í nýjum hittara með Jóhannesi Hauki
Leikarinn Jóhannes Haukur er meðal þeirra sem birtist í tónlistarmyndbandinu við nýja lag Áttunnar, L8, sem gefið var út í gær. Suðurnesjakonan Sólborg Guðbrandsdóttir, fyrrum blaðamaður Víkurfrétta, hefur síðan í júní síðastliðnum verið hluti af Áttunni, en þetta er annað lag hennar með hópnum. Ásamt henni eru Hildur Sif Guðmundsdóttir og Þórir Geir Guðmundsson í Áttunni.
„Okkur langaði að gefa út grín lag og úr varð L8, þar sem við erum að djóka með trend á samfélagsmiðlum. Við fengum algjörlega besta fólkið í bransanum með okkur í þetta lag,“ segir Sólborg í samtali við Víkurfréttir en lagið er unnið af þeim Inga Bauer og Lárusi Erni Arnarsyni. Jóhannes Haukur bæði talar inn á lagið og birtist í myndbandinu en fyrir utan hann leikur Randver Þorláksson, sem er best þekktur fyrir Spaugstofuna, í myndbandinu ásamt öðru samfélagsmiðlafólki.
„Við gætum ekki verið sáttari með útkomuna. Lagið er komið með 30 þúsund hlustanir á einum degi og við erum mjög þakklát fyrir það.”
Hægt er að hlusta á lagið hér.