Sögustaðurinn Sandgerði
Þegar komið er til Sandgerðis frá Keflavík, er listaverkið Álög á hægri hönd. Það er eftir Steinunni Þórarinsdóttur, myndlistakonu og er minnisvarði um sjómenn. Þrjár rústfríar öldur eiga að tákna að hafið er eilíft, en maður úr pottstáli sem ryðgar, táknar að maðurinn er forgengilegur.Fengsæl fiskimiðListaverkið við innkomuna er vel við hæfi þar sem Sandgerði er mikill útgerðarbær. Sandgerðishöfn er ein umferðamesta höfn landsins, enda stutt þaðan á fengsæl fiskimið. Þar er mikill fjöldi smábáta sem róa daglega þegar veður leyfir, og fimm löndunarkranar til taks þegar komið er að landi. Björgunarbáturinn Hannes Hafstein liggur við festar í höfninni, en hann er einn fullkomnasti björgunarbátur landsins.Slakað á í pottunumNýtt og glæsilegt íþróttasvæði Knattspyrnufélagsins Reynis, ásamt vallarhúsi, er við Stafnesveg, og þar eru miklir möguleikar á að halda íþróttamót og aðrar uppákomur. Á efri hæð vallarhússins er æskulýðsmiðstöðin Skýjaborg. Skammt frá íþróttavellinum er íþróttamiðstöð og sundlaug, þar sem hægt er að lyfta lóðum og slaka á í heitu pottunum. Golfarar ættu að leggja leið sína á Vallarhúsavöllinn, sem nær inná land Kirkjubóls. Þar er nýr og glæsilegur golfskáli og mjög skemmtilegur níu holu völlur. Fyrir fróðleiksfúsafagurkeraListunnendur geta eflaust fundið eitthvað við sitt hæfi í listasmiðjunni Ný Vídd við Strandgötu. Þar stunda um 140 manns, á öllum aldri, ýmis konar listsköpun, s.s. leirgerð, málun, teiknun, trévinnu og fleira. Sagan í Sandgerði er litrík og áhugasamir geta farið í skemmtilega söguskoðunarferð um bæinn. Við Kettlingatjörn stendur t.d. Efra-Sandgerði, sem er elsta hús Sandgerðis, byggt árið 1883 af Sveinbirni Þórðarsyni útvegsbónda. Húsið er byggt úr timbri sem var í seglskipinu James Town, en það rak mannlaust á land við Þórshöfn árið 1881. Lionsklúbbur Sandgerðis hefur að undanförnu unnið að endurbyggingu hússins, og er eigandi þess.Við Hafurbjarnastaði fundust merk kuml um miðja síðustu öld, en frá bænum liggur Skagagarðurinn, sem mun hafa verið hlaðinn árið 1015, og liggur hann að Útskálum. Bæjarsker er gömul landnámsjörð, og er talið að Steinunn gamla, frænka Ingólfs Arnarssonar, hafi búið þar.Þeir sem heimsækja Sandgerði ættu ekki að sleppa að skoða Hvalsneskirkju, sem er steinkirkja og ein af sögufrægustu kirkjum landsins. Stórútvegsbóndinn Ketill Ketilsson frá Kotvogi, lét reisa hana árið 1887. Séra Hallgrímur Pétursson, var þar prestur á árunum 1644 til 1651 og þar hvílir Steinunn dóttir hans, sem lést er hún var 4 ára. Legsteinn hennar fannst árið 1964 og er varðveittur í kirkjunni.