Sögubrot og myndir
Hreinn Friðfinnsson opnar sýningu í Suðsuðvestur laugardaginn 22. júlí n.k. kl.16.00 þar sem hann sýnir innsetninguna „Sögubrot og myndir.“
Hreinn Friðfinnsson var einn af stofnendum SÚM-samtakanna árið 1965 en þau skiptu sköpum í þróun framúrstefnulistar hér á landi á sjöunda áratugnum. Hreinn hefur búið í Amsterdam síðan 1971 og sýnt verk sín víða. Myndlist hans er ljóðræn og innileg, en henni hefur líka verið líkt við heimspekilega könnunarferð um hverfula hversdagslega tilveru.
Þegar litið er yfir verk Hreins fer ekki á milli mála að ljósmyndin er honum afar hugleikin. Hann notar hana í hugmyndaverkum sínum og sem hluta í samsettum lágmyndum, en einnig sem heimild eða skrásetningu. Hreinn hefur sjálfur sagt að hann reyni alltaf að hafa upp á því sem er óvenjulegt í hinu venjulega og þau orð eiga vel við ljósmyndir hans frá áttunda áratugnum. Þá gerði hann oft heimildarmyndir af ofurvenjulegum hlutum eða atvikum; myndir sem eru einhvern veginn mjög afslappaðar en samt einbeittar og hárnákvæmar og ná fyrir vikið að skapa sérkennilegan galdur. Raunar mætti í grófum dráttum skipta verkum Hreins hingað til í þrjú skeið.
Á áttunda áratugnum gerði Hreinn nær eingöngu ljóðræn ljósmyndaverk í anda hugmyndalistar. Á níunda áratugnum tók hann að glíma við áþreifanlegan efnivið og formbyggingu og gerði samsettar, þrívíðar lágmyndir sem eru oft dálítið leikrænar og dulúðugar. Á tíunda áratugnum ber aftur meira á ljósmyndum og einföldum hversdagslegum fyrirbærum í verkum Hreins. Í viðtali sem tekið var við hann fyrir nokkrum árum segist hann alltaf reyna að koma auga á möguleika sem tengjast einhverju sem er fyrir hendi og gera á því „örlitla breytingu sem nægir til að blása í það nýju lífi.“
Sýningin stendur til 20 ágúst,
Suðsuðvestur er opið fimmtudaga og föstudaga frá kl.16 – 18 og um helgar frá kl.14 – 17. Einnig er hægt að skoða sýninguna eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.sudsudvestur.is