Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Söfnuðu yfir milljón á styrktarviðburðum
Mánudagur 4. apríl 2011 kl. 10:56

Söfnuðu yfir milljón á styrktarviðburðum

Þau Daníel Cramer, Ingveldur Eyjólfsdóttir og Sonný Lára Þráinsdóttir, nemendur í viðburðarstjórnun í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands, héldu viðburði til styrktar Helga Rúnars Jóhannessonar og Birkis Alfons Rúnarssonar og söfnuðu þau 1,1 milljón króna. „Viðburðurinn gekk vonum framar en við bjuggumst í raun aldrei við þeim móttökum sem við fengum og stöndum eftir orðlaus af þeirri góðvild sem fólk býr yfir hér á Suðurnesjunum,“ sögðu krakkarnir.

„Það er með réttu hægt að segja að við hefðum aldrei getað gert þetta án þeirra hjálpar sem við fengum og viljum við þakka Paddý’s, Ölgerðinni, NFS, OldBoys, Center, hljómsveitum og skemmtikröftum sem gáfu vinnu sína og síðast en ekki síst þeim einstaklingum sem mættu, tóku þátt og styrktu fjölskyldurnar. Við settum okkur markmið að ná rúmri milljón og náðum við því markmiði og gott betur en 1,1 milljón safnaðist og sitjum við þrjú hér eftir með stórt bros á vör.“

Fjölskylda Helga Rúnars
Fjölskylda Helga Rúnars vill koma á framfæri þakklæti fyrir veittan stuðning og hlýhug sem hún hefur fengið í baráttu hans við krabbamein. Það er ómetanlegt á erfiðum tímum sem þessum, að sjá hversu margir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkunum til að gera okkur baráttuna auðveldari á einn eða annan hátt.

Meðferðin gengur vonum framar, lyfjameðferðinni er nýlokið og byrjar hann í geislameðferð í byrjun mars. Hann hefur reynt að stunda skóla samhliða meðferðinni frá áramótum eins vel og hann getur en eins og er að skilja, þá taka veikindi sem þessi sinn toll. Framtíðin er björt og erum við einbeitt á að Helgi jafni sig sem best.

Enn og aftur þakkar fjölskyldan öllum fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt starf sem það hefur innt af hendi í okkar þágu.
Guð blessi ykkur öll.

Fjölskylda Birkis Alfons
Föstudaginn 28. janúar sl. greindist Birkir Alfons okkar, þá tæplega 15 ára, með bráðahvítblæði. Þessi dagur breytti lífi okkar allra í einni svipan. Lífið tók sem sagt U beygju eins og Bergsveinn minn segir. Áfallið var stórt en við ákváðum öll frá byrjun að við myndum tækla þetta öll saman sem eitt lið, svolítið eins og landsliðið í handbolta, taka bara Óla Stef á þetta. Sjá fyrir sér sigurinn við endann á langhlaupinu og bara endalaus jákvæðni en bíp á allt annað!

Liðið fékk nafnið „Team Birkir“ frá góðum vini okkar og fyrirliðinn er hetjan Birkir Alfons. En það er sama hversu liðið er sterkt það verður alltaf mikið sterkara við góðan stuðning. Það eru varla til nógu sterk orð til að þakka allan stuðninginn sem Team Birkir hefur fengið síðustu mánuði.

Á Barnaspítala Hringsins vinna bara englar í mannsmynd, æðislegur tæknilegur stuðningur. SKB Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna á sér enga líka, þvílíkur stuðningur í orðum og verki algjörlega ómetanlegt þegar fjölskyldur lenda í þessum aðstæðum. Þau virkar á mann svona eins og opinn öruggur faðmur, og langar mig að biðja alla að hugsa með hlýhug til SKB. Þar er unnið eitt óeigingjarnasta starf á landinu, þótt víðar væri leitað.

Elsku Ingveldur, Daniel og Sonný Lára. Ástarþakkir fyrir ykkar yndislegu styrktartónleika og allan ykkar stórkostlega stuðning við okkur, ásamt Paddýs, Center og Minningarmóti Ragnars Margeirssonar.
Okkar einlægu þakkir til meistaraliða Keflavíkur í körfubolta og fótbolta fyrir ómetanlegan stuðning ásamt Lionsklúbbi Njarðvíkur og elskulegum Valþóri með Ásbergsbergsballið í Stapa. Yndislegt þakklæti til ykkar allra sem hafa mætt okkur til stuðnings, staðið að og tekið þátt í þessu öllu.

Og síðast en ekki síst einlægar ástarþakkir til ykkar allra, fjölskyldu, vina og kunningja okkar sem hafið fært okkur svo yndislegar gjafir og bjartsýni og góða strauma. Það sannast enn og aftur að það sýnir hver sinn innri mann með orðum og gerðum og þið eruð bara yndisleg öll sömul!

Það er svo frábært að finna alla samstöðuna og samhuginn hér í bænum okkar og gerir okkur svo óendanlega stolt af því að vera Suðurnesjamenn og Keflvíkingar.
Áfram Keflavík! Takk fyrir allt þið yndislegu!
Fyrir hönd „Team Birkir“
Siddý og Rúnar.

Mynd efst: Ingveldur og Cramer afhenda fjölskyldu Helga Rúnars styrkinn. Mynd neðst: Ingveldur og Cramer afhenda fjölskyldu Birkis Alfons styrkinn.
VF-Myndir: Siggi Jóns



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024