Söfnuðu 275 þús. kr. á styrktarsýningu fyrir veikan nemanda
Jólasöngleikurinn „Hvað er í pakkanum“ í Myllubakkaskóla er bráð skemmtileg sýning og góð upphitun fyrir jólamánuðinn sem gengur nú í garð. Að sýningunni standa þrjár ungar konur, þær Íris Dröfn Halldórsdóttir, Gunnheiður Kjartansdóttir og Freydís. Kneif Kolbeinsdóttir.
Fjöldi nemenda á aldrinum 7-16 ára úr grunnskólum í Reykjanesbæ og Grindavík og Fjölbrautaskóla Suðurnesja taka þátt í söngleiknum sem fjallar um fjölskyldu sem er að leggja lokahönd á jólaundirbúninginn á Þorláksmessu. Söngleikurinn er skemmtisýning með nettri áminningu um jólabrjálæðið sem heltekur marga í desember. Mamman í fjölskyldunni er fráskilin með fjögur börn. Hún gleymir því að næst elsta stelpan var búin að bjóða ellefu stelpum úr fimleikunum í partý, var sein að kaupa lifandi jólatré og hafði sig ekki í það að sjóða skötuna fyrir afa sem systir hennar átti að vera búin að ná í fyrir löngu. Aðal söguhetjan og söngvarinn er þó dóttirin Bára en hún er leikin af Þórdísi Birnu Borgarsdóttur, skvísa á unglingsaldri að pakka jólagjöf kærastans í upphafi leikritsins. Hún syngur feikna vel en margir aðrir koma við sögu og allir standa sig mjög vel, syngja tólf jólalög og koma manni í gott jólaskap nú í upphafi aðventu.
Það er aðdáunarvert að sjá yfir þrjátíu krakka á aldrinum 7-16 ára á sviði á sama tíma en öll koma þau við sögu í söng og leik. Ungir krakkar syngja og eru ófeimin á sviðinu og einhvern veginn finnst manni eins og krakkar í dag séu opnari og frakkari en áður. Á sviðinu ná þau vel saman, sama hvað þau eru gömul.
Jólalögin eru tólf sem þau syngja, eru bæði hefðbundin eins og við flest þekkjum þau en einnig í þeirra úrfærslu.
Þær stöllur Íris, Gunnheiður og Freydís eiga heiður skilið fyrir framtakið en þær tvær fyrrnefndu settu upp söngleikinn Öskubusku í fyrra og tókst sú sýning einnig mjög vel.
Sérstök styrktarsýning var á fimmtudagskvöld og söfnuðust 275 þús. krónur sem runnu til Sigfinns Pálssonar og fjölskyldu hans en hann greindist nýlega með krabbamein. Sigfinnur er nemi í Holtaskóla og var viðstaddur sýninguna ásamt móður sinni og fleirum úr fjölskyldu sinni. Frábær hugmynd hjá þeim stöllum og krökkunum í sýningunni. Þau eiga heiður skilið.
Hvet alla til að leggja leið sína í Myllubakkaskóla á söngleikinn. Maður kemst í jólaskap og nýtur þess einnig að sjá hvað krakkarnir eru frábær á sviðinu.
Páll Ketilsson.