Söfn leita til íbúa
Í lok ágúst var ljósmyndasýningin Horfin hús – Horfinn heimur opnuð í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar en sýningin er unnin í samstarfi Bókasafns Reykjanesbæjar og Byggðasafn Reykjanesbæjar. Á sýningunni er að finna ljósmyndir af gömlum húsum og mannlífi á slóðum þar sem Bókasafnið er til húsa í dag, heimur sem er ýmist horfinn eða á hröðu undanhaldi nýrra tíma. Íbúum gefst kostur á að bæta við upplýsingum um myndirnar á sýningunni og efni þeim tengdum.
Víkurfréttir hittu þær Önnu Maríu Cornette, sýningastjóra Bókasafns Reykjanesbæjar, og Evu Kristínu Dal, forstöðumann Byggðasafns Reykjanesbæjar, í Duus húsum og fékk að heyra hvernig hafi komið til samstarfs milli safnanna.
Brotabrot af safnkostinum
Hvernig vildi það til að byggðasafnið og bókasafnið fóru í eina sæng saman með svona sýningu?
„Byggðasafnið á náttúrlega mjög stórt og gott ljósmyndasafn en bókasafnið og byggðasafnið vinna bara mjög náið saman myndi ég segja,“ segir Eva og Anna María tekur undir það með henni. „Þetta eru tvö söfn sem sveitarfélagið rekur og auðvitað viljum við fá svona samlegðaráhrif, byggðasafnið hefur eitt að bjóða og bókasafnið annað. Saman verður frábær útkoma úr því.“
Eva segir að samstarfið hafi legið beint við þegar Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar, hafði samband við hana og spurði hvort hún væri ekki til í samstarf. „Það var auðvitað alveg sjálfsagt að opna dyrnar fyrir bókasafninu að koma og skoða ljósmyndasafnið okkar.“
Það er enginn rígur eða samkeppni á milli stofnana?
„Nei, við vinnum bara frekar mikið saman,“ segir Eva. Þær stöllur hlæja að spurningunni og segja að sameiginlegt markmið beggja safna sé að bæta lífsgæði bæjarbúa og takist það með því að vinna saman þá gera söfnin það. „Svo er bara mjög gaman þegar við vinnum saman,“ bætir Anna María við og Eva tekur undir það.
Anna María segir að sýningarsalur bókasafnsins, Átthagastofa, sé sérstaklega hugsaður fyrir sýningar tengdum heimahögunum og þar eigi Byggðasafn Reykjanesbæjar og Bókasafn Reykjanesbæjar augljósa samleið.
„Við erum með stóran og góðan safnkost í byggðasafninu sem kemur héðan af Suðurnesjum,“ segir Eva. „Við höfum bara ákveðna getu til að sýna og sýnum bara lítið brotabrot af safnkostinum okkar hverju sinni, þannig að það er frábært að koma því að víðar.“
Óhefðbundinn sýningarstaður
Anna María segir að bókasafnið sé ekki hefðbundinn sýningarstaður. „Fólk á leið í ráðhúsið í allskonar erindagjörðum og dettur þá jafnvel inn á þær sýningar sem eru í gangi hjá okkur. Það er ekki eingöngu að koma í þeim tilgangi að sjá sýningarnar okkar ólíkt því þegar fólk gerir sér sérstaka ferð til að sjá sýningar byggðasafnsins ef ég nefni það sem dæmi.“
„Þetta er svona óformlegri vettvangur og kannski annar markhópur sem við erum að ná til þarna. Það er auðvitað bara frábært að bókasafnið sé með þetta sýningarrými og geti sett upp sýningar,“ segir Eva.
„Okkur finnst líka frábært að geta verið með sýningar fyrir alla,“ bætir Anna María við.
Byggðasafnið er svo auðvitað alltaf með sýningarrými í Duus húsum.
„Já, nú erum við búin að koma því svo fyrir að sýningar byggðasafnsins verða hér í Bryggjuhúsinu héðan af og við ætlum að halda þeim þar í stað þess að vera dreifð um húsið. Þannig að það sé auðveldara fyrir gesti að átta sig á að nú sé það komið inn á byggðasafnið.
Hér hafa staðið yfir mjög miklar framkvæmdir, það er búið að setja lyftu í húsið og það bætir aðgengi til muna. Það þurfti líka að styrkja gólfið svo við þurftum að taka allt niður og byrja frá grunni – svo núna erum við með fjórar sýningar í húsinu.“
Það fyrsta sem ég rek augun í þegar ég geng hérna inn er veggur fullur af ljósmyndum. Mér finnst þetta eiginlega vera framhald af sýningunni í bókasafninu.
„Það er reyndar alls engin tilviljun,“ segir Eva. „Við erum hérna með íbúana og í bókasafninu eru húsin. Það er auðvitað gaman að geta látið sýningarnar tala svolítið saman.“
„Þetta var mjög skemmtilegt þegar við byrjuðum að vinna í þessu,“ segir Anna María. „Kjartan bæjarstjóri kom með hugmyndina að sýningunni eftir að hafa sé sambærilega sýningu í Chicago. Stefanía talaði svo við byggðasafnið sem segir okkur frá möppu af myndum sem var búið að taka saman. Ég fór auðvitað að grúska í þessu og fann grein í Faxa frá 1978 þar sem auglýst var eftir myndum af fólki sem bjó í Keflavík í kringum 1920, umhverfinu í kring og störfum fólks. Ólafur Þorsteinsson skrifaði þessa grein og var að safna myndum sér til gamans fyrir væntanlegt byggðasafn. Það var mjög skemmtilegt að detta niður á þessa grein því okkar sýning er af húsum frá þessum tíma en bundin við reitinn sem ráðhúsið stendur á og næsta nágrenni, af húsum sem búið er að rífa eða eru mikið breytt og fjölskyldunum sem bjuggu þar.“
45 ára gömul hugmynd
Anna María segir að Ólafur vitni í uppdrátt af Keflavík frá þessum tíma, sama uppdrátt og er á sýningunni í bókasafninu:
„Til er uppdráttur af Keflavík frá þeim tíma og talinn sá elsti sem til er af Keflavík. Því tel ég gaman að til séu myndir af þessu fólki með uppdrættinum og svo má rekja áfram, í myndunum, ættliðina í það óendanlega að minnsta kosti það fólk, sem haldið hefur áfram og halda mun sig við Keflavíkina.“ (Ólafur Þorsteinsson, Faxi, 3. tbl. 1978)
„Þannig að þetta er hugmynd sem hefur eiginlega verið til í 45 ár,“ segir hún og bætir við að í sumum tilfellum vanti upplýsingar með myndunum sem eru á sýningunni og hafi gestir viðbótarupplýsingar, eða jafnvel leiðréttingar, þá séu þeir hvattir til að koma þeim til skila á sýningunni.
„Við lendum svolítið í því að fólk er að koma með myndir til okkar, sem við tökum gjarnan við, en þekkingin hefur glatast úr fjölskyldunni,“ segir Eva. „Það er að segja, hverjir eru á myndinni.“
„Þannig að markmiðið með sýningunni er líka að fá þessar upplýsingar,“ segir Anna María. „Við gerum okkur grein fyrir því að eftir því sem lengra líður eru minni líkur á að þessar upplýsingar skili sér – og við viljum allar upplýsingar; hver þetta er, hvenær þetta er og hvert er tilefnið. Það hleypir meira lífi í efnið.“
Sýningin Horfin hús – Horfinn heimur stendur yfir fram í miðjan nóvember á opnunartíma safnsins og eru íbúar hvattir til að kíkja á hana – og bæta við upplýsingum ef þeir luma á þeim.