Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 25. júlí 2002 kl. 10:21

Sniglar fara á fyllerí í skólagörðunum

Skólagarðarnir eru nú í fullum gangi en þeir hófust 10. júní og standa til 13. ágúst en þá verður haldin uppskeruhátíð. Á henni verða grillaðar pylsur og grænmetið sem krakkarnir eru búnir að rækta tekið upp og veitt fyrir það verðlaun m.a. fyrir þyngsta grænmetið, snyrtilegustu garðana og bestu mætinguna. Í skólagörðunum kennir ýmissa grasa og þar er sniglum m.a. gefinn bjór.

Að sögn Katrínar Guðjónsdóttur, eins forstöðumanns skólagarðanna, hefur sumarið verið mjög skemmtilegt. Krakkarnir hafa haft mjög gaman af því að rækta grænmeti og skemmt sér vel. Á næstunni verður farið í ferð í Húsdýragarðinn og svo verður einnig farið Árbæjarlaugina í sund en þetta er gert til að hafa allt sem fjölbreytilegast.
Mörg skemmtilega gömul húsráð eru notuð til að fæla snigla og önnur skordýr frá grænmetinu, t.d. er eggjaskurn og kaffibaunum dreift um beðin. Það sem vakti þó mesta atygli fréttamanns var að búið var að grafa plastglös í öll beðin og í þeim var annaðhvort pilsner eða bjór!
Katrín segir að þetta sé gert til að drekkja sniglunum en þeir eru víst vitlausir í bjór. Skríða þeir ofan í glasið til að fá sér að drekka og drukkna svo í bjórnum og drepast. Það er því óhætt að segja að sniglar fari á fyllerí í skólagörðunum.

Myndin: Krakkarnir á skólagörðunum hafa skemmt sér vel í sumar. Á miðri myndinni aðeins til hægri má sjá glitta í hvítt plastglas grafið í moldina en í því er bjór. VF-mynd: SævarS
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024