Smári tekur við eftir sögulegt leikár
-Nýr formaður Leikfélags Keflavíkur er spenntur fyrir komandi leikári þó hann fái hvorki skrifstofu né einkabílstjóra
„Síðasta leikár var náttúrulega fáránlegt, þar sem öll aðsóknarmet voru slegin, en við munum reyna að halda sama dampi,“ segir nýr formaður Leikfélags Keflavíkur, Sigurður Smári Hansson. Áður hafði Davíð Óskarsson verið formaður leikfélagsins í nokkur ár, en hann lét af störfum í maí síðastliðnum.
„Þau í stjórn leikfélagsins töluðu við mig og spurðu hvort ég hefði áhuga á því að bjóða mig fram sem formann,“ segir Smári, eins og hann er oftast kallaður, og hann ákvað að láta slag standa. „Ég hef ekki áður verið í stjórn leikfélagsins svo ég þarf að læra almennilega inn á hlutina, en þetta leggst mjög vel í mig. Eflaust myndu einhverjir setja spurningarmerki við það ég færi beint í formennsku í fyrsta skiptið sem ég er í stjórn, en ég mun reyna að gera mitt besta.“
Fór einn í rútu og festist
Smári hefur verið viðloðinn leikfélagið frá árinu 2011 og tekið þátt í fjölda sýninga. Hann er 23 ára tónlistarmaður og smiður og kemur frá Garðinum. „Árið 2011 sá ég auglýsingu á Facebook hjá Unglingaleikfélagi Keflavíkur um að það væri spunakvöld. Ég tók þá rútu einn frá Garðinum til Keflavíkur, settist þar inn eins og vitleysingur og ég hef bara ekki farið út síðan þá,“ segir hann. Um jólin sama ár tók Smári svo þátt í sinni fyrstu sýningu hjá félaginu.
Snilld fyrir athyglissjúka
Síðastliðið leikár var sögulegt hjá Leikfélagi Keflavíkur en, eins og áður kom fram, var aðsóknarmet slegið á barnasýningunni „Dýrunum í Hálsaskógi“, sem leikstýrt var af Gunnari Helgasyni. Þá var seinni sýning leikársins, Mystery boy, eftir Smára Guðmundsson í leikstjórn Jóels Sæmundssonar, valin Athyglisverðasta áhugasýning leikársins og var sýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins þann 24. maí síðastliðinn. „Það var náttúrulega bara frábært. Það verður erfitt að toppa síðasta leikár en maður þarf alltaf að reyna,“ segir Smári.
Aðspurður segir hann leikfélagið vera fyrir alla. „Þetta er ekki bara spurning um að vera leikari eða söngvari. Fólk kemur hingað til að vera sminkur og ljósamenn, til að smíða leikmyndir eða að keyra ljósin á sýningum. Þetta er svo miklu meira en bara að vera uppi á sviði. En þetta er auðvitað snilld fyrir þá sem eru athyglissjúkir og vilja vera uppi á sviði og hafa gaman að því.“
Enginn einkabílstjóri hjá LK
Hógvær segir Smári að formennskan sé í raun og veru bara titill. „Þetta er eiginlega ekkert hærra starf en hvað annað hjá leikfélaginu. Ég fæ enga skrifstofu einhvers staðar né einkabílstjóra. En ég fæ að skrifa formannspistla í leikskrár,” bætir hann við og brosir.
Framundan hjá Leikfélagi Keflavíkur á leikárinu eru tvær sýningar, en þeir sem hafa áhuga á því að taka þátt í starfi félagsins geta fylgst með á Facebook síðu þess.
„Maður kynnist fullt af skemmtilegu fólki, tekur þátt í alls konar verkefnum og vinnur með flottum leikstjórum. Þetta er bara svo ógeðslega gaman,“ segir bjartsýnn nýr formaður.
-Sólborg Guðbrands