Smári Klári handleggsbraut Björgvin í Lifun
Keppnisskapið í hljómlistarmönnum á Suðurnesjum er svo mikið að einn var fluttur á slysamóttöku í gær og úrskurðaður handleggsbrotinn. Gerandinn í málinu, Smári Klári Guðmundsson, kenndur við Klassart og Lifun, segir að handleggsbrotið hafi verið alveg óvart. Þolandinn, Björgvin Ívar Baldursson, einnig bendlaður við Klassart og Lifun, er bókaður á 15 tónlistarviðburði fram til jóla og lifir nú í óvissu.
„Björgvin var bókaður á marga viðburði með Selmu Björns, sem gefa vel af sér. Nú fæ ég að spila með Selmu í staðinn fyrir hann,“ sagði Smári Klári Guðmundsson í samtali við Víkurfréttir rétt í þessu.
Björgvin Ívar og Smári Klári voru að spila fótbolta í gær og var Björgvin í marki. Hann gerði heiðarlega tilraun til að verja þrumuskot Smára en þá vildi ekki betur til en svo að það small í höndinni og brákaði bein.
„Þetta var alls ekki blóðugt slys. Læknir sem var á staðnum hélt meira að segja fyrst að Björgvin væri óbrotinn. Þau á slysó áttuðu sig á því að hér væri tónlistarstjarna á ferðinni þegar Björgvin mætti á svæðið þannig að hann fékk gifsi með rennilás þannig að hann getur tekið af sér umbúðirnar þegar hann á að spila. Hann getur reyndar bara spilað á bassa núna og verður að láta gítarinn eiga sig,“ sagði Smári Klári í samtali við Víkurfréttir.
Þeir félagar Björgvin og Smári láta þetta fótboltaslys í gær ekki eyðileggja samstarfið og taka þessu öllu á léttum nótum. Smári er þó á því að það væri gáfulegra að láta knattspyrnuna eiga sig í desember, þegar mikil vertíð er hjá tónlistarfólki. „Menn eiga að minnsta kosti ekki að vera í marki,“ sagði Smári og viðurkenndi að þeir hafi verið að leika sér með þungan bolta í gær þegar slysið varð.
Björgvin Ívar þarf að láta gítarleikinn eiga sig en getur að sögn Smára Klára plokkað strengi á bassanum þrátt fyrir brotið. „Hann getur rennt af sér umbúðunum og sturtað í sig verkjalyfjum rétt á meðan hann spilar“.
Myndin: Smári Klári og Björgvin Ívar mættu saman í viðtal í Víkurfréttum á dögunum, óbrotnir. VF-mynd: Páll Ketilsson