Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Slökkviliðið braut upp útihurðina vegna hávaða frá vekjaraklukku á jóladag
Þriðjudagur 22. desember 2020 kl. 07:28

Slökkviliðið braut upp útihurðina vegna hávaða frá vekjaraklukku á jóladag

Guðmundur Hermannsson er tónmenntakennari í Heiðarskóla í Keflavík og tónlistarmaður. Hann segir jólin koma þegar jólaljósin fara upp í bænum og jólalögin byrja að hljóma í útvarpi og tónmenntatímum.

– Ertu mikið jólabarn?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Já, ég tel mig vera það. Alla vega finnst mér jólin vera yndislegur tími.“

– Fóru jólaljósin fyrr upp í ár en í fyrra?

„Þau eru nú ekki enn komin upp en aðventuljósin eru komin út í glugga.“

– Skreytir þú heimilið mikið?

„Nei, ég geri það nú ekki.“

– Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?

„Margar yndislegar minningar en líklega stendur upp úr sjokkið sem ég fékk þegar ég fékk símtal á jóladag í miðju fjölskylduboði hjá Kalla bróður þar sem mér var sagt að það væri kviknað í heimili mínu. Við hjónin rukum út og keyrðum í loftinu niður Faxabrautina og sáum blikkandi ljós slövkkviliðsbifreiðar fyrir utan íbúðina okkar og slökkviliðsmann standa í hurðagættinni sem þeir höfðu brotið upp. Ég hljóp í áttina til hans en hann kallaði og sagði mér að slaka á. Þetta væri misskilningur því það hefði rafmagnsvekjaraklukka í íbúðinni hringt klukkan sex. Hún byrjaði rólega en ef ekki væri slökkt á henni þá jókst hávaðinn og á endanum hljómaði hún eins og reykskynjari. Dóttir mín hafði stillt hana klukkan sex deginum áður til að missa örugglega ekki af jólunum og hún svo farið aftur í gang daginn eftir. Það var stillt veður og brunalykt í loftinu út af eldi í örnum í húsum í kring. Nágrannar heyrðu í klukkunni og hringdu á slökkviliðið. Þetta var sem betur fer talið vera löglegt útkall og tryggingar borguðu viðgerðina á útihurðinni.“

– Hvað er ómissandi á jólum?

„Fjölskyldan og samvera með þeim og svo náttúrlega Nóa konfektið.“

– Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?

„Það er svo sérstök og skemmtileg stemmning í loftinu á jólunum.“

– Bakar þú fyrir jólin og hvað þá helst?

„Nei, ég baka aldrei.“

– Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

„Tja, það er nú misjafnt en ég reyni að vera tímanlega í því.“

– Hvenær setjið þið upp jólatré?

„Hér áður fyrr var það alltaf gert á Þorláksmessu en núna síðastliðin ár geri ég þó fyrr en ekki á einhverjum ákveðnum degi.“

– Eftirminnilegasta jólagjöfin?

„Ætli það sé ekki stóri slökkvibíllinn sem ég fékk sendan frá Bandaríkjunum frá frænku minni sem bjó þar. Þá hef ég verið uþb. fjögurra, fimm ára.“

– Hvenær eru jólin komin fyrir þér?

„Tja, þegar jólaljósin fara að koma upp í bænum og jólalögin fara að hljóma í tónmenntatímum og útvarpi.“

– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

„Aldrei eða ekki svo ég muni.“