Slátrara í heimabyggð?
Það er ekki um auðugan garð að gresja í sunnudagssteikinni nú sem endranær á Suðurnesjum. „Vaccum“ pakkaðar steikur virka ekki eins vel á mig og velútilátið kjötborð, þar sem þú ímyndar þér slátrarann með blóðugan hníf í hvítum slopp og Nokia stígvélum. Rjóðan í kinnum með yfirvaraskegg og allt að því írskan. Hvað er þetta með Suðurnesin, eigum við ekki rétt á eins og einu kjötborði í tuttugu þúsund manna samfélagi? Er eymdin alger?
Mér hugnast ekki að fara inn í Fjarðarkaup til þess eins að elta alvöru kjötborð, jafnvel þó það sé það allra besta á öllu landinu. Ég vil versla heima og tryggja atvinnusköpun. Vann tvö sumur í sláturhúsi í Grindavík og hef séð blóð og jarm. Framhandleggir fláara voru eins og læri á lömbum. Ég vil kjötið beint í borðið og án pökkunar. Trúi því að þið séuð mér sammála. Eigum við ekki að þrýsta á „Kaupfélagið“ að bjóða okkur alvöru kjötborð að hætti borgarbúa? Ég neita því að framlegðin sé svo slök að ekki sé hægt að hafa slátrarann í heimabyggð! Kílóið af lambavöðva er komið í fjögur þúsund kall! Guði sé lof fyrir íslensku heimahagana!
Haustdagar kaupmanna voru hins vegar að mínu viti bitlausir og ekki eins og við munum þá. Einhvern veginn slappir. Samkenndin óljós, jafnt milli viðskiptavina og verslana. Hitti einn verslunareiganda klukkan eitt á laugardaginn, sem sagði mér að hann væri búinn að loka og Suðurnesjamenn ættu engan pening. Ég dreif mig út í skóbúð og keypti mér nýja vinnuskó á þrettán þúsund kall. Var samt með samviskubit yfir því að hafa ekki litið inn í fleiri búðir. Gleymdi samkenndinni. Við viljum hafa verslanir í heimabyggð og verðum að muna að tryggja tilvist þeirra. Ekki nóg að vilja hafa þær þegar hentar. Gæti e.t.v. hjálpað að veita meiri afslátt en tuttugu prósent. Helvíti erfitt samt að keppa við Ameríkuna. Guggurnar skreppa þangað eins og enginn sé morgundagurinn! Það telur og telur drjúgt...!
Valur Ketilsson