Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Slakur þegar ég stíg á svið“
Laugardagur 4. júlí 2015 kl. 09:00

„Slakur þegar ég stíg á svið“

Már Gunnarsson samdi og flutti lag um Vigdísi Finnbogadóttur.

„Fyrstu kynni mín af Vigdísi voru þau að ég labbaði á hana á árshátíð Blindrafélagsins í fyrra sumar. Hún ætlaði að reyna að ná tali af mér en vegna þess að ég gekk á hana fengum við kjörið tækifæri til að tala saman. Hún hafði haft gaman að flutningi mínum og vildi fylgjast með mér í framtíðinni. Ég vildi þá gera það fyrir hana að semja lag sem héti Vigdís. Hún þáði það með þökkum,“ segir hinn hæfileikaríki Suðurnesjamaður Már Gunnarsson, sem spilaði frumsamið lag til fyrrum forseta Íslands á hátíðardagskrá vegna þess að 35 ár voru liðin frá því hún var kjörin. „Við fréttum af þessari hátíð og pabbi hafði samband við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og þar var samþykkt að ég myndi fram á þessari hátíð. Karl Olgeirsson sá um útsetningu ásamt Siggu Eyrúnu, Birgi Bragasyni og Kidda á trommum.“ 
 

Opnar vonandi tækifæri í framtíðinni

Spurður segir Már ekkert mál hafa verið að koma fram í beinni útsendingu. „Þetta var bara gaman. Ég er bara slakur þegar ég stíg á svið.“ Þá segist hann hafa lært mjög mikið af þessu. „Það er alltaf rosalega gaman að spila með tónlistarmönnum sem eru færari en maður sjálfur. Svipað og með skákina, best að tefla við þá sem eru betri en maður sjálfur. Þá lærir maður meira. Síðan er líka gaman að kynnast þessu fólki og þetta mun örugglega opna einhver tækifæri vonandi í framtíðinni.“ Már bindur vonir við að spila á enn stærri skemmtunum í framtíðinni þótt þetta sé langstærsta hingað til. „Bæði frumsamið efni og kannski eftir einhverja aðra líka, tíminn leiðir það í ljós. Ég var mjög ánægður með hvernig til tókst og að fá að spila þarna var ótrúlega skemmtilegt. Vigdís er alveg frábær, mjög indæl og jákvæð kona sem gerir allt vel sem hún gerir. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér er slóð á upptökuna úr sjónvarpinu: 

VF/Olga Björt