Skyrgámur laumast í bað í Bláa lóninu
Jólasveinninn Skyrgámur sem hefur verið sérstaklega duglegur við að heilsa upp á Reyknesinga um þessi jól og í gær var hann á jólaballi í gamla safnaðarheimilinu í Höfnum. Hann sagði krökkunum að hann væri fluttur úr fjallinu Keili yfir í Þorbjörn í Grindavík því þá gæti hann laumast í bað í Bláa lóninu.
Skyrgámur hefur mörg undanfarin ár verið í aðalhlutverki í miðbæ Keflavíkur á Þorláksmessu og glatt þar börn og fullorðna. Hann var víða á ferðinni um þessi jól en Suðurnesjamenn hafa alltaf haldið sérstaklega upp á Skyrgám. Hann syngur svo vel og svo þekkir hann svo marga bæjarbúa, börn og fullorðna. Meðfylgjandi myndir voru teknar á jólaballi í Höfnum í gær en Skyrgámur leit þar við og heilsaði upp á krakkana. Nú fer að styttast í að Skyrgámur og félagar hans haldi til fjalla. Við munum kveðja þá rauðklæddu á miðvikudaginn en þá er þrettándinn. Sérstök þrettándagleði verður í Reykjanesbæ eins og undanfarin ár við Ægisgötu. Dagskráin hefst með skrúðgöngu frá Myllubakkaskóla í Keflavík að hátíðarsvæðinu við Ægisgötu. Í lokin verður flugeldasýning á vegum Björgunarsveitarinnar Suðurnes.
Skyrgámur var hinn hressasti á jólaballi í Höfnum í gær.
Skyrgámur gaf krökkunum nammi og spjallaði við þau. Skrýtið hvað hann þekkir marga, bæða börn og fullorðna.
Svo gekk hann í kringum jólatréð og söng með þeim.