Skrifaði smásögur og myndskreytti
Jóhanna Lilja sigraði Stóru upplestrarkeppnina
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í DUUShúsum á dögunum. Þar kepptu tveir fulltrúar allra grunnskólanna í Reykjanesbæ og Sandgerði, alls 14 nemendur. Keppendur lásu texta úr bók Þorgríms Þráinssonar „Ertu Guð, afi?“, ljóð eftir Erlu (Guðfinnu Þorsteinsdóttur) og ljóð að eigin vali.
Jóhanna Lilja Pálsdóttir úr Njarðvíkurskóla sigraði, Kristján Jón Bogason, Akurskóla varð í 2. sæti og Svava Rún Sigurðardóttir, Heiðarskóla varð í 3. sæti.
Við ræddum við nokkra nemendur sem tóku þátt í keppninni og spurðum þau út í hvað þau væru að lesa þessa dagana.
Jóhanna Lilja Pálsdóttir úr Njarðvíkurskóla er núna að lesa bókina Nikký en rithöfundurinn Jacqueline Wilson er í miklu uppáhaldi hjá Jóhönnu og les hún mikið af bókum eftir hana. Jóhönnu finnst gaman að lesa skemmtilegar bækur. Jóhanna er áskrifandi að tímaritinu Júlíu og hefur mjög gaman af greinum þar. Jóhönnu finnst Rökkurhæðir bækurnar mjög skemmtilegar. Hún hefur líka gaman af bókunum hans Gunna Helga. Á sínum yngri árum skrifaði hún margar smásögur og myndskreytti sjálf.
Í frítíma þá æfir hún sig á gítar en hún er í gítarnámi í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Einnig æfir Jóhanna Lilja körfubolta með 7. flokki í Njarðvík þar sem flestar vinkonur hennar æfa líka. Jóhanna hefur æft bæði á píanó og fiðlu.
Hryllingssögur og ævintýrasögur skemmtilegastar
Kristjáni Jóni Bogasyni úr Akurskóla finnst nánast allar bækur skemmtilegar en honum finnst þó hryllingssögur og ævintýrasögur vera skemmtilegastar. Síðasta bókin sem hann las var Rangstæður í Reykjavík eftir Gunnar Helgason. Kristján les stundum tímaritin Lifandi Vísindi, og hafði hann mjög gaman af teiknimyndasögum þegar hann var yngri, sérstaklega bókunum um Ævintýri Tinna.
Sjá má fleiri viðtöl við krakkana með því að smella hér og hér.
Kristján Jón Bogason.