„Skreytum kökuna en bökum ekki 30 nýjar sortir“
Hátt í eitt hundrað manns tóku þátt í líflegum vinnufundi menningarráðs Reykjanesbæjar í gær þegar bæjarbúum var gefinn kostur á að koma að endurskoðun menningarstefnu sveitarfélagsins sem nú stendur yfir. Í máli Guðbjargar Ingimundardóttur, formanns menningarráðs kom fram að nú væri góður tími til að taka stöðuna og að það verkefni biði nýs ráðs að vinna úr því efni sem fram kæmi og móta menningarstefnu til framtíðar.
Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi rakti þróun og stöðu menningarmála í sveitarfélaginu í stuttu máli og myndum og í framhaldinu var lagt upp í hópavinnu. Þátttakendur gátu valið sér þrjá umræðuhópa af sex og tuttugu mínútna skoðanaskipti fóru fram í hverjum hópi þannig að snarpar og fjölbreyttar umræður sköpuðust.
Á fundarmönnum var að heyra að flestum fannst mikið og gott starf hafa unnist í menningarmálum á síðustu 15-20 árum og ef fólk ætlaði sér að mæta á alla þá menningarviðburði sem í boði eru í sveitarfélaginu hefði það vart undan. Alltaf megi þó gera betur en með því sé ekki endilega átt við að fjölga þurfi viðburðum eða menningarstofnunum heldur frekar með því að hlúa vel að því starfi sem er til staðar með því að styrkja það, þróa og bæta sbr. fyrirsögnin hér að ofan.
Í því samhengi var m.a. nefnt að mikilvægt væri að skapa aðstöðu eða vettvang til að menningin geti blómstrað svo sem fyrir grasrótarstarf. Þá var nokkuð rætt um hvernig best verði staðið að kynningu á menningarviðburðum og starfi þannig að það nái í gegn til fólks. Loks var áberandi fjölmenningartónn í umræðunni í ljósi þess að erlendum íbúum hefur fjölgað til mikilla muna í bænum og var þátttakendum umhugað um að sá hópur hefði aðkomu að menningarstarfi bæjarins.
Tillögur fundarmanna verða nú lagðar fram á næsta fundi menningarráðs Reykjanesbæjar sem tekur ákvörðun um næstu skref í endurskoðun stefnunnar.