Skötumessan í Garði næstkomandi miðvikudag
Skötumessan verður haldin miðvikudaginn 21. júlí klukkan 19:00 í Gerðaskóla í Garði. Í fjölmörg ár hefur Skötumessan verið haldin í Garðinum og safnað styrkjum til handa þeim sem minna mega sín.
Dagskrá messunar verður ekki af verri endanum en eins og venjulega spila harmonikkuleikararnir Dói og Baldvin á nikkurnar, Páll Rúnar Pálsson frá Heiði í Mýrdal syngur og félagarnir Davíð og Óskar taka lagið.
Ræðumaður kvöldsin verður Óttar Guðmundsson, geðlæknir, sem að líkindum fer á kostum. Þá syngur ung söngkona frá Hellu, Karen Guðmarsdóttir, nokkur lög en hún stundar söngnám í The international College of Musical Theatre í London. Jarl Sigurgeirsson, tónlistarmaður, tekur nokkur fjöldasöngslög. Þá verður öllum styrkjum Skötumessunnar útdeilt sem hafa aldrei verið stærri og glæsilegri en nú og koma vonandi að góðum notum. Í lokin mun Rúnar Þór og hljómsveit hans flytja nokkur þekkt lög.
Skötumessan er að njóta þess að sterkir aðilar vilja nú leggja henni til til hjálpar í samfélaginu. Styrkur Skötumessunnar birtist í því að það eru allir sem koma og leggja henni lið sem eru þátttakendur í því að leggja okkar veikari bræðrum og systrum lið og góðum samfélagslegum málum.
Enn er ekki of seint að tryggja sér miða en verð aðgöngumiða er aðeins 5.000 krónur. Það hjálpar til að greiða aðganginn inn á reikning Skötumessunnar fyrir fram eins og okkar fólk er vant en reiknisnúmerið er; 0142-05-70506, kt. 580711-0650.