Skötumessan haldin í Garði 11. júlí nk.
Miðvikudaginn 11. júlí nk. verður Skötumessan enn og aftur haldinn í Gerðaskóla í Garði. Borðhald hefst kl. 19.00 og að venju er boðið uppá glæsilegt hlaðborð af skötu, saltfiski, plokkfiski og meðlæti og rómuð skemmtidagskrá að venju flutt af fólki sem leggur okkur lið.
Skólamatur sér um matinn eins og áður og skemmidagskráin samanstendur af hefðbundnum atriðum. Dói og Baldvin sjá um harmonikkuleik á meðan fólkið er að koma sér fyrir og síðan rekur hver dagskrárliðurinn sig af öðrum. Andri Páll Guðmundsson söngvari, Geir Ólafsson og Þórir Baldursson taka saman ballöður og Sr. Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur verður ræðumaður kvöldsins. Þa er von á góðu frá þeim mikla snillingi. Þá afhendum við styrkina sem við öll erum þátttakendur í og að lokum verða stuttir tónleikar þar sem hljómsveitin Gullkistan og Gunnar Þórðarson skemmta Skötumessugestum.
Vilt þú verða einn af þeim?
Enn eitt árið er verðstöðvun hjá Skötumessunni og verð aðgöngumiða er 4,000- kr. Það hjálpar til að greiða aðganginn inn á reikning Skötumessunnar fyrir fram eins og okkar fólk er vant en reiknisnúmerið er; 0142-05-70506, kt. 580711-0650.
Árlega mæta rúmlega 400 manns á Skötumessuna og borða til blessunar eins og dómkirkjupresturinn orðaði það svo skemmtilega við mig. Við leggjum öll saman í þetta verkefni og erum líka öll viðstödd þegar styrkirnir eru greiddir út í lok kvöldsins. Ég spyr því þig ledandi góður. Vilt þú ekki verða einn af þeim sem leggja fötluðum og þeim sem eru hjálpar þurfi lið. Skötumessan er tækifæri til þess og við erum öll saman í verkefninu og finnum það á hjarta okkar hvert og eitt hvað þetta kvöld skiptir miklu máli fyrir þá sem við styðjum.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í Gerðaskóla miðvikudaginn 11. júlí og gott að mæta tímanlega og finna sér sæti og hlusta á harmonikkutóna frá Dóa og Baldvin fyrir kvöldverðinn.
Skötumessan er áhugafélag um velferð fatlaðra.
Helstu stuðningsaðilar Skötumessunnar eru; Fiskmarkaður Suðurnesja, Skólamatur ehf, Icelandair Cargo, Sv. Garður og Sandgerði og fl.