Skóli dauðans sigursæll í Garði
Stuttmyndin Skóli dauðans var hlutskörpust á stuttmyndahátíð Gerðaskóla sem haldin var síðasta vetrardag. Á hátíðinni sýndu valhópar í stuttmyndagerð afrakstur vinnu sinnar en krakkarnir eru úr 8.-10. bekk.
Sýndar voru sex myndir og segir á heimasíðu Garðs að gæði myndanna hafi komið skemmtilega á óvart þar sem kvikmyndagerðarmennirnir voru alls óreyndir.
Dómnefnd hafði verið skipuð til að velja bestu myndina, frumlegustu myndina, bestu leikgerðina og besta leikinn í kven- og karlhlutverki. Í nefndinni voru þau Guðmundur Magnússon, Ólöf Elíasdóttir og Agnar Júlíusson.
Frumlegasta myndin var valin Tölvuvírus sem valhópur úr 10. bekk hafði gert. Hún þótti einnig vera með bestu leikgerðina. Kristjana Margrét Snorradóttir, 9. bekk, hlaut verðlun fyrir besta leik í kvenhlutverki fyrir leik sinn í Skóli dauðans en besti leikarinn í karlhlutverki var Hannes Dagur Jóhannsson, 8. bekk fyrir leik sinn í Looser.
Skóli dauðans, hlaut síðan aðalverðlaunin sem besta myndin eins og áður sagði. Vinningshafar fengu afhent innrömmuð viðurkenningarskjöl fyrir góðan árangur, en heiðurinn af undirbúningi hátíðarinnar og allri skipulagningu og auk þess að kenna greinina á Vitor Hugo Eugenio segir á vef Gerðaskóla.