Skólasöngur Stóru-Vogaskóla valinn
Í upphafi skólaársins var auglýst eftir skólasöng fyrir Stóru – Vogaskóla í Vogum. Óskað var eftir bæði lagi og texta, lagið átti að vera vel fallið til söng og átti textinn að endurspegla gildi skólas sem eru Virðing, Vinátta og Velgengni. Eftir jólin var unnið úr innsendum tillögum, söngvarnir voru sungnir á samkomum skólans og kynntir vel í fréttablaði skólans.
Í byrjun febrúar var kosið í skólanum um það hvor söngurinn yrði skólasöngur Stóru-Vogaskóla. Kennari fór með gítar og textana á glærum í alla bekki skólans og var það algerri tilviljun háð hvaða söngur var sunginn fyrst. Eftir það voru atkvæði greidd með handauppréttingu, síðan voru atkvæði talin.
Söngurinn Í Stóru-Vogaskóla eftir hjónin Sigurð Kristinsson og Bryndísi Rafnsdóttir sigraði í kosningunni og var því útnefndur skólasöngur skólans við hátíðlega athöfn á föstudagssamveru þann 22.febrúar.
Hér má sjá nýja skólasönginn:
Í Stóru-Vogaskóla
Í Stóru Vogaskóla gaman er að vera
alltaf glöð við mætum
þar er nóg að gera.
Allir læra að lesa
og líka skrifa á blað
ekki er hægt að finna skemmtilegri stað.
Nú við syngjum saman
söng með glaða lund
Því lífið á okkur kallar
eftir skamma stund.
Þá er gott að kunna
einkunnarorðin þrjú
og eftir þeim alltaf fara
bæði ég og þú.
Þetta er virðing, sem allir eiga að hljóta,
Þetta er vinátta, sem alltaf er til bóta
Þetta er velgengni, sem allir eiga að njóta.
Ef við þetta munum, okkar ævi skeið
::þá verður lífsins gata örugglega breið::
Lag Bryndís Rafnsdóttir.
Texti Sigurður Kristinsson.
Myndir:
Nemendur 1.bekkjar syngja á föstudagssamveru
Bryndís Rafnsdóttir tekur við viðurkenningu fyrir hönd þeirra hjóna.