Skólahreystimeisturum fagnað í Heiðarskóla í dag
Nemendur Heiðarskóla í Reykjanesbæ hafa verið boðaðir á sal núna kl. 10:30 til að fagna sigri í Skólahreysti en lið Heiðarskóla gerði sér lítið fyrir og fór með sigur af hólmi í þessari erfiðu hreystikeppni en úrslitin fóru fram í Laugardalshöll sl. fimmtudag.
Keppnin stóð milli 12 skóla og var hún gríðarlega spennandi. Úrslit réðust ekki fyrr en í síðustu keppnisgrein. Það var lið Heiðarskóla úr Reykjanesbæ sem sigraði með 55 stigum auk þess sem liðið setti tvö ný Íslandsmet. Foldaskóli endaði í öðru sæti með 46 stig. Í þriðja sæti endaði Háteigsskóli með 45,5 stig.
Þrjú Íslandsmet voru slegin í úrslitakeppninni, í hraðþraut, armbeygjum og dýfum. María Ása Ásþórsdóttir, Heiðarskóla, sló Íslandsmet þegar hún tók 95 armbeygjur. Pálmi Rafn Steindórsson úr Foldaskóla sló eigið Íslandsmet í dýfum og náði hann 67 dýfum, eldra met var 59. Þá var slegið Íslandsmet í hraðaþraut sem staðið hafði óhreyft síðan 2007. Soffía Klemensdóttir og Eyþór Ingi Einarsson úr Heiðarskóla slógu metið og fóru brautina á 02:07 mínútum.
Heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, setti keppnina og Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, veitti verðlaun ásamt forstjóra Mjólkursamsölunnar, Magnúsi Ólafssyni. Mjólkursamsalan, aðalstyrktaraðili Skólahreysti, gaf öll verðlaun, m.a. peningaverðlaun til nemendafélaga efstu þriggja skólanna, hjól til vinningsliðsins ásamt því að allir keppendur fengu verðlaunapeninga og boli.
Um 2.500 áhorfendur mættu í Laugardalshöll. Stuðningsmannaliðin létu ekki sitt eftir liggja og fjölmenntu í lit síns skóla, trommur og lúðrar, spjöld og búningar prýddu einnig liðin. Stemningin í mótinu var ólýsanleg og þar voru unglingar grunnskóla landsins samhentir og samstilltir og öllum til prýði og sóma.
Í vetur tóku nærri 120 grunnskólar víðs vegar um landið þátt í undankeppnum í Skólahreysti. Áhugi skólanna eykst ár frá ári og í mörgum skólum er Skólahreysti orðið partur af stundaskránni. Skólahreysti hefur aukið áhuga unglinganna á hreyfingu og hreysti og ljóst er að frammistaða keppenda verður sífellt betri.
Alla þætti frá Skólahreysti 2009 verður hægt að finna inn á Skólahreysti.is.