Skólafélagarnir héldu mig vera frá annarri plánetu
- Segir ritstjóri Vizkustykkis sem hefur fengist við skriftir frá unga aldri
Hin 17 ára María Rose Bustos er ritstjóri Vizkustykkis, skólablaðs Fjölbrautaskóla Suðurnesja en blaðið kemur út á næstunni. Undirbúningur fyrir útgáfu hefur verið á fullu að undanförnu og við fengum hina ungu ritstýru í viðtal og forvitnuðumst um skyldur og störf ritstjórans, en þau eru af ýmsum toga. María segir von á fersku og fjölbreyttu blaði og einnig að Suðurnesjamenn hafi verið hjálpfúsir við vinnslu blaðsins.
„Það felst margt í þessu starfi, að vera í ritnefnd snýst nefnilega ekki bara um það að skrifa greinar, heldur þurfum við að skipuleggja hvert einasta smáatriði fyrir heilt blað og það er heilmikil vinna. Að vera ritstjóri er nefnilega mun meiri vinna en margir halda, en þetta er án efa eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir María sem er afar ánægð með þá hjálp sem ritnefndin hefur fengið frá Suðurnesjamönnum við vinnslu blaðsins. „Það var alls ekkert erfitt að finna efni í blaðið því nóg er um að vera á Suðurnesjum. Núna erum við til dæmis með eiginlega of mikið efni, sem er samt bara lúxusvandamál. Okkur var alls staðar tekið mjög vel sem kom mér skemmtilega á óvart. Það eru einhvern veginn allir til í að vera með í blaðinu eða hjálpa til og langflestir eru mjög almennilegir.“
Að vanda er fjölbreytt efni í blaðinu og segir María að FS-ingar megi vænta þess að sjá margt nýtt og ferskt. „Í þessu Vizkustykki er ýmislegt sem FS-ingar hafa ekki séð áður, án þess að ég sé að gefa of mikið upp. En þrátt fyrir ýmislegt nýtt erum við líka með margt gamalt og gott, eins og kynningu á nefndum og stjórninni, ásamt myndum frá liðnum viðburðum á vegum NFS.“
„Ég held að ég eigi alla vega þrjár „bækur“ sem ég skrifaði þegar ég var yngri, þar sem minn heitasti draumur var að vera rithöfundur.“
Gætir þú hugsað þér að vinna við ritstörf í framtíðinni?
„Já, ég get vel ímyndað mér það. Mér finnst margt svo ótrúlega heillandi við blaðamennsku, þannig að það kæmi mér alls ekki á óvart,“ segir María sem telur að blaðamennskan fari vel saman við aðal áhugamálið sem eru ferðalög. „Þetta er starf sem að þú gætir sinnt hvar sem er í heiminum, það skiptir mig mjög miklu máli vegna þess að ég hef mikinn áhuga á því að ferðast og sjá heiminn. Síðan er þetta bara svo ótrúlega skemmtilegt, ekki bara að skrifa greinar sem er reyndar mjög skemmtilegt, en líka að redda öllu sem þarf að redda og að reyna að gera blað sem höfðar til sem flestra. Líka það að gera blaðið eins áhugavert, frumlegt og skemmtilegt og hægt er. Þetta er mikil vinna en jafnframt ótrúlega gefandi.“
María hefur frá blautu barnsbeini verið með pennann á lofti og skrifað mikið. Hún segir að ímyndunaraflið þurfi að fá lausan tauminn. „Ég held að ég eigi alla vega þrjár „bækur“ sem ég skrifaði þegar ég var yngri, þar sem minn heitasti draumur var að vera rithöfundur. Í grunnskóla voru samnemendur mínir orðnir verulega þreyttir á mér vegna þess að alltaf þegar við áttum að skrifa sögu heima og lesa síðan upp fyrir bekkinn, var ég alltaf með fáránlega langar sögur, og misskemmtilegar að sjálfsögðu. Ég var líka með svakalegt ímyndunarafl þannig að ég efast ekki um að margir hafi haldið að ég væri frá annarri plánetu,“ segir María og hlær.
Eins og áður segir er verið að leggja lokahönd á Viskustykki en margir hafa lagt hönd á plóg við gerð blaðsins. „Við erum sjö í ritnefndinni sjálfri en við erum búin að fá nokkra aðila til þess að skrifa fyrir okkur. Síðan eru margir að sjá um blaðið sjálft. Það er sko alveg nóg að gera. Það er smá stress hjá mér en ég held að það sé alveg venjulegt á lokasprettinum, en það er allt að klárast og þá getum við öll andað léttar.“