Skipuleggur sína eigin fermingarveislu
- Með brennandi áhuga á bakstri
„Þegar kom að því að hefja undirbúninginn að fermingunni þá steig ég til hliðar þar sem að Ása var með það alveg á hreinu hvernig hún vildi hafa daginn“, segir Ragnheiður Garðarsdóttir, móðir Ásu Gísladóttur sem mun fermast 15. apríl í Keflavíkurkirkju.
Ása er miðjubarn þeirra hjóna Ragnheiðar Garðarsdóttur og Gísla Aðalsteins Jónassonar en fjölskyldan samanstendur af þeim Ragnheiði og Gísla ásamt börnunum þrem, þeim Garðari Franz, Ásu og Guðrúnu en öll ganga þau systkinin í Heiðarskóla í Reykjanesbæ.
Ása er ósköp venjulegur unglingur, spilar körfubolta, horfir á þættina Teen Wolf á Netflix og er mikil félagsvera ásamt því að hafa brennandi áhuga á bakstri. Hún hefur til að mynda selt sörur fyrir tvö síðastliðin jól og bakaði Ása hátt í 900 sörur fyrir síðustu jól. Einnig hefur hún selt bollakökur fyrir fermingarveislur. „Hún hefur mikla ástríðu fyrir bakstrinum, finnst þetta skemmtilegt og við leyfum það, þar hefur hún fengið að njóta sín“, segir Ragnheiður. Þá er Ása mjög iðinn við eldamennskuna og hefur til að mynda séð um að gera jólaísinn fyrir fjölskylduna þrjú síðastliðin jól.
Hvernig kviknaði áhuginn?
„Ég var mikið að baka með ömmu Gunnu fyrir jólin, sörur og lagtertur“, segir Ása en þannig kviknaði áhuginn. Ása var ekki mikið eldri en tíu ára þegar hún var alltaf að gera sykurmassakökur og bakaði hún afmæliskökuna fyrir bróður sinn þegar hann hélt upp á 12 ára afmælið sitt.
Ása er það áhugasöm að hún starfar einn morgun í viku í Sigurjónsbakaríi frá sex til átta á morgnana áður en hún fer í skólann, þar fylgist hún með framleiðslunni og gengur í þau verkefni sem hún fær. Ásu langar að fara í Menntaskólann í Kópavogi til þess að nema bakaraiðn að grunnskóla loknum og er draumurinn einnig að komast út til New York í skóla þar sem kenndar eru kökuskreytingar.
Hvernig hefur undirbúningurinn fyrir ferminguna gengið?
„Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel, stresslaust og Ása sér um allt frá A-Ö, ég fæ að vera í skúrnum að föndra krukkurnar og flöskurnar sem verða notaðar sem vasar og kertastjakar“ segir Ragnheiður brosandi.
Bollakökur, kransakaka, marenstertur, sörur og cake pops er á meðal þess sem boðið verður uppá í veislunni og mun Ása sjá um allan baksturinn að undanskildri fermingartertunni og brauðmetinu.
Veislan mun telja um hundrað manns og verður haldin á Mótel Best í Vogum, sem er í eigu föðurbróður Ásu en þar hefur Ása starfað sem þerna undanfarin tvö sumur. Ása hefur því haft nægan tíma til þess að myndskreyta veislusalinn í huganum.
Verður eitthvað þema í veislunni?
„Já það verður þema, antik bleikur er liturinn ásamt blúndu og striga, svona rómantískur blær yfir öllu“, segja þær mæðgur.
Það er allt útpælt hvað ferminguna varðar, kjóllin sem er hvítur var keyptur í House of Fraser í Glasgow og hafði Ása eytt drjúgum tíma á netinu í að skoða kjóla áður en að út var haldið. Þar ytra keyptu mæðgurnar einnig mikið af skrauti sem notað verður í veislunni.
Það eru ekki mörg fermingarbörn á landinu sem skipuleggi fermingarveisluna sína sjálf en það hefur hún Ása gert. „Ég ætti í rauninni að borga henni fyrir þetta, því hún er svo mikill snillingur“, segir Ragnheiður að lokum.