Skipstjórinn sem keypti sér skútu og býr í henni núna
Var sjónvarpsstjarna um tíma þegar hann fékk óvant fólk sem vildi kynna sér sjómannslífið á Íslandi um borð í línuskipinu Páli Jónssyni frá Grindavík
Benedikt Páll Jónsson er annar tveggja skipstjóra á línuskipinu Páli Jónssyni sem Vísir hf. í Grindavík gerir út. Benni flutti ungur vestur á firði og byrjaði ungur til sjós. Hann kynntist konunni sinni, Guðbjörgu Arnardóttur fyrir vestan, atvinna dró þau suður og þau enduðu í Grindavík. Fyrir nokkrum árum fékk Benni áhuga á skútusiglingum og stundaði það áhugamál nokkuð grimmt með tengdaföður sínum, Erni Sveinsyni. Stuttu eftir að þeir ákváðu að selja skútu sína í Danmörku og ganga í siglingafélag í Tyrklandi, fékk Örn illkynja heilaæxli og var látinn þremur mánuðum síðar. Benedikt og Guðbjörg sem var farin að stunda skútuáhugamálið með Benna, ákváðu þá að lífið væri of stutt til að bíða, seldu húsið sitt í Grindavík og búa í dag í skútunni sinni sem að sjálfsögðu fékk nafnið Örn og liggur venjulega í höfninni í Hafnarfirði.
Benni byrjaði á að fara yfir sjómannsferilinn.
„Ég fæddist í Reykjavík en við fluttum svo á Bíldudal þegar ég var fjögurra ára gamall og þar ólst ég upp. Ég kynntist konunni minni sem er frá Tálknafirði og flutti mig þangað yfir og var þar í ellefu ár en svo fluttum við til Grindavíkur árið 2004. Æskuminningarnar fyrir vestan eru tengdar höfninni, mamma segir að ég hafi dottið að meðaltali tvisvar sinnum í sjóinn á dag og svo sagði einn sjóarinn að það væri allt eins gott að taka mig bara með á sjóinn því ég væri hvort sem er alltaf á höfninni. Ég var síðan byrjaður að vinna á fullu á sjó upp úr fermingu og ljóst hvað ég myndi starfa við í framtíðinni. Ég ætlaði mér alltaf að verða vélstjóri eins og pabbi en fór í staðinn í Stýrimannaskólann og kláraði annað stigið ´93 ef ég man rétt. Á þessum tíma var mest af kvótanum farinn suður svo það var erfitt að hafa eitthvað upp úr sjómennsku fyrir vestan, ég var eitthvað að reyna að vera á grásleppu en gekk ekki vel svo ég elti pláss suður, tók við kvótalausum bát í Hafnarfirði en svo gekk það ekki nógu vel og ég tók upp tólið og hringdi í bekkjarbróður úr Stýrimannaskólanum, Jón Gauta Dagbjartsson sem er frá Grindavík. Það var eins og við manninn mælt, Gauti tók okkur hjónin í útsýnistúr um Grindavík og við keyptum okkur hús þar. Fljótlega var ég búinn að ráða mig sem háseta á Venna sem Óli Björn Björgvinsson var með, fór þaðan yfir á Þórkötlu sem Stakkavík gerði út og svo á einhverja aðra báta en alltaf þegar ég labbaði niður á smábátahöfnina í Grindavík, tók ég eftir 100 tonna vertíðarbát, Gulltoppi, sem Hemmi í Stakkavík átti. Ég kíkti á karlinn og spurði hvað hann ætlaði að gera við þennan bát. Hemmi er svo fyndinn, mundi ekkert eftir að hann ætti þennan bát og úr varð að ég gerðist skipstjóri á honum og var með hann í tæp tíu ár.“
Vísir og sjónvarpsstjarna
Á meðan Benni var með Gulltopp þurfti venjulega að stöðva skipið yfir sumarið vegna kvótastöðu og þá prófaði hann ýmislegt, sigldi með þara í Breiðafirðinum, ferðamenn á sömu slóðum á Særúnu og prófaði eitt og annað en undanfarin ár hefur hann verið á Páli Jónssyni, sem Vísir hf. í Grindavík gerir út. Fyrir nokkrum árum fékk Benni að kynnast „show-mennsku“ á sjónum.
„Ég kann afskaplega vel við mig hjá Vísisfjölskyldunni, það er frábært að vinna fyrir þetta fyrirtæki og ég á ekki von á öðru en ég ljúki sjómannsferlinum hjá þessu frábæra fyrirtæki. Það hefur gengið mjög vel undanfarin ár en vegna hamfaranna í Grindavík höfum við þurft að haga veiðum öðruvísi, erum meira í svokölluðu skrapi núna þar sem reynt er við aðrar tegundir en þorsk og megum ekki koma með nema 40 til 50 tonn af þorski í hverjum túr. Það hefur gengið vel að fiska, það virðist vera nóg af fiski í sjónum. Þetta skip er það nýjasta í flotanum hjá Vísi og er alveg frábært skip í alla staði.
Það var skemmtilegt verkefni sem við fengum upp í hendurnar, við og línuskipið Valdimar frá Þorbirni. Það kom lið frá Discovery sjónvarpsstöðinni og fylgdi okkur eftir í fjóra mánuði. Það gekk á ýmsu en hugmyndin gekk út á að útlendingur sem var alveg blautur á bak við eyrun, myndi ráða sig um borð og prófa sjómannslífið. Þetta eru sömu aðilar og gera Deadliest catch, vinsælir þættir á Discovery og ég myndi segja að þetta hafi gengið vel. Ég þvertók fyrir að eitthvað leikrit yrði í gangi, þau máttu koma og prófa þetta og þurftu bara að taka á því eins og aðrir. Þetta voru algerir harðhausar, t.d. tvær stelpur sem voru í tökuliðinu, þær ældu eins og múkkar en létu ekkert á sig fá og héldu bara áfram. Þættirnir voru síðan sýndir á Stöð tvö og fengu góða dóma. Ég hef nú ekki orðið fyrir neinu áreiti frá Hollywood og á ekki von á tilboðum þaðan úr því sem komið er,“ sagði Benni sposkur.
Skúta nýja heimilið og áhugamálið
Fyrir u.þ.b. tíu árum síðan keypti Örn heitinn, tengdapabbi Benna, skútu í Danmörku og bað Benna um að koma með sér að skoða gripinn. Það skipti engum togum, Benni kolféll fyrir þessu sporti en hann og Örn voru alltaf bestu vinir á meðan Örn lifði.
„Örn hringdi í mig á sunnudegi og sagði mér frá skútu í Danmörku sem hann væri að spá í að kaupa. Við vorum komnir upp í flugvél daginn eftir og hann keypti skútuna. Hann sá fljótlega að það væri of mikið mál að eiga skútuna einn svo ég keypti helmingshlut af honum og við Guðbjörg helltum okkur út í þetta með honum. Við sigldum um Eystrasaltið á sumrin en tókum skútuna upp á veturna. Þegar Páll Jónsson var smíðaður í Gdansk í Póllandi, sigldum við á skútunni þangað og skoðuðum nýsmíðina. Við vorum í siglingaklúbbi í Danmörku og áttum frábæran tíma en svo kom að því að okkur langaði til að komast á suðlægari slóðir. Við fréttum af íslenskum siglingaklúbbi í Tyrklandi sem eiga skútu sem heitir Salka Valka, seldum skútuna í Danmörku og keyptum okkur inn í Sölku. Örn bjó hjá okkur á þessum tíma eftir að hafa misst konuna sína en blekið var varla þornað á kaupunum á Sölku þegar Örn kenndi sér meins og eftir læknisrannsókn kom í ljós að hann var með illkynja heilaæxli og var dáinn þremur mánuðum síðar. Hann náði því aldrei að upplifa að sigla skútunni í Tyrklandi, þetta var mikið áfall fyrir okkur. Við Guðbjörg hugsuðum með okkur að lífið væri of stutt til láta ekki drauma okkar rætast, okkar lífsviðhorf breyttust og við komumst að þeirri niðurstöðu að enginn gæti lofað okkur góðri heilsu þegar við verðum eldri. Við ákváðum að selja húsið okkar í Grindavík og keyptum okkur skútu og þar búum við núna ásamt fimmtán ára dóttur okkar, henni Sunnu Marín og hundinum Stjörnu. Skútan liggur í Hafnarfirði og við erum í skýjunum á nýja heimilinu. Þetta er annar veturinn okkar í skútunni og við gætum ekki verið ánægðari,“ sagði Benni að lokum.