Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skipstjórinn í oddvitasæti Frjálslynda lýðræðisflokkins vill gefa strandveiðar frjálsar
Sunnudagur 19. september 2021 kl. 09:07

Skipstjórinn í oddvitasæti Frjálslynda lýðræðisflokkins vill gefa strandveiðar frjálsar

Magnús Guðbergsson, skipstjóri er að reyna fyrir sér í pólitík í fyrsta sinn og er oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins. Eftir strandveiðar í sumar fór hann um landið og ræddi við fólkið og naut þess líka að vera í fríi. Þá flaug hann í þyrlu að gosinu í Fagradalsfjalli og fannst það mikil upplifun.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég var á strandveiðum en varð frá að hverfa. Fór í framhaldinu að undirbúa oddvitaframboðið í Suðurkjördæmi fyrir XO Frjálslynda lýðræðisflokkinn x-o.is og lagði áherslu á að fara út um allt land og heimsækja byggðirnar.

Við konan áttum frábæra upplifun og nutum þess að kynnast fullt af flottu fólki í leiðinni. Enda á bara að hafa gaman á sumrin. Við heimsóttum dóttur mína á Akureyri og nutum okkar með barnabörnunum í Kjarnaskógi, enda nóg fyrir stafni fyrir krakkana þar. Þá var ég líka að hjálpa börnunum mínum að kaupa sinn fyrsta bíl og hjálpa einni dóttur minni að byrja að búa í fyrsta sinn – en náði lítið að heimsækja og vera með langveika barnabarninu Aroni vegna smithættu. Enda mjög viðkvæmur fyrir og við þurfum að passa allt í sambandi við litla kút. Þarna tekur ríkið lítið tillit til aðstæðna og má laga mikið inn í þessum málaflokki.“

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

„Þyrluflug með frænku minni hjá Heli Austria. Geðveikt gaman og tókum tengdó með, mágkonu mína og bróður minn. Ferðin var á gosið sem er nánast inni í byggðinni hjá okkur. Stórfengleg sjón og sýnir okkur hversu óútreiknanlegt okkar land er.“

Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

„Þeir eru nokkrir sem ég get nefnt. Þingvellir eru t.d. alltaf fallegir og líka Syðri-Reykir. Þar er alltaf gott veður. Á Dimmuborgum er stórfenglegt landslag og það er alltaf gaman að koma til Akureyrar. Svo er auðvitað endalaust hægt að telja upp staði á Suðurlandi, allar sveitirnar og allir þessir sögulegu staðir.“

Hver er helstu afrek þín á heimilinu í hverri viku?

„Ætli það séu ekki bara svona það sem fellur til. Annars er ég svo vel giftur að hún er svona aðal í þessu. Annars erum við mjög samstíga. Keyptum nýlega róbót og hann er kominn í mikið uppáhald hjá okkur.“

Uppáhaldsmatur?

„Jólamaturinn maður, hamborgarhryggur með öllu og auðvitað þverskorin ýsa.“

Hver er þinn styrkur í matreiðslunni?

„Grillið og jólamaturinn. Eins og fjölskyldan segir. Ómissandi.“

Notaðir þú sumarfríið eitthvað til að undirbúa kosningabaráttuna?

„Já og í leiðinni kynntumst við mörgu góðu fólki úti um allt land sem var frábært heim að sækja. Það sló mig mikið að sjá að þessar litlu byggðir sem byggja allt sitt á strandveiðibátum og stutt væri í að þau ljós slokknuðu enda tímabilinu að ljúka og 300–400 tonn hvergi finnanleg fyrir þessa duglegu trillukarla.

Þessi ríkisstjórn sýndi að hún er vonlaus og vitamáttlaus þegar það kemur að byggðum landsins sem hafa verið rænd öllum aflaheimildum sem þær höfðu yfir að ráða.“

Hver er tilfinningin fyrir komandi alþingiskosningum og kosningabaráttunni?

„Mjög jákvæð og við erum að finna góða strauma með okkur í þessu – og þó svo við séum útundan í öllum skoðanakönnunum þá er ég bara bjartsýnn og hef óbilandi trú á fólkinu í landinu okkar um að vilja ná  fram réttlæti fyrir þjóðina alla. Hún á það svo mikið skilið, eftir allt sem undan er gengið.“

Hver eru stærstu málin fyrir Suðurnesin sem þú setur í forgang?

„Atvinnumál. Auka umsvif við flugvöllinn og tengda þjónustu. Leik- og skólamál almennt. Auka útflutningsverðmæti sjávarafla með fullvinnslu. Allur fiskur á markað og strandveiðar frjálsar. Byggja upp íbúðir fyrir eldri borgara og öryrkja. Klára Reykjanesbraut. Tryggja þjónustu í hvert byggðalag.“

Hvert er draumaríkisstjórnarsamstarf þitt?

„Ég á erfitt með að svara því og ætla að segja pass – en eitt er víst að það þarf að vera mjög sambærilegt við okkar stefnuskrá til þess að það verði almennilegt fyrir þjóðina.“